Viðskipti innlent

Gjaldþrotum fækkað um 20 prósent

Sæunn Gísladóttir skrifar
Hlutfallslega fækkaði gjaldþrotum mest í rekstri gististaða og veitingarekstri.
Hlutfallslega fækkaði gjaldþrotum mest í rekstri gististaða og veitingarekstri. Vísir/Pjetur
Gjaldþrotum einkahlutafélaga síðustu 12 mánuði, frá mars 2015 til febrúar 2016, hefur fækkað um 20 prósent í samanburði við 12 mánuði þar á undan. Alls voru 629 fyrirtæki tekin til gjaldþrotaskipta á tímabilinu, borið saman við 784 á fyrra tímabili, samkvæmt tölum Hagstofunnar.

Hlutfallslega fækkaði gjaldþrotum mest í rekstri gististaða og veitingarekstri, úr 67 í 43 (36 prósent). Einnig má nefna fækkun gjaldþrota í sérfræðilegri, vísindalegri og tæknilegri starfsemi úr 75 í 50 (33 prósent), auk þess að í flutningum og geymslu fækkaði gjaldþrotum úr 24 í 17 (29 prósent). Gjaldþrotum fækkaði frá fyrri 12 mánuðum í öllum helstu atvinnugreinabálkum nema í  upplýsingum og fjarskiptum, þar sem þau stóðu í stað (34 gjaldþrot á hvoru tímabili).

Nýskráningum einkahlutafélaga síðustu 12 mánuði hefur fjölgað um 15 prósent í samanburði við 12 mánuði þar á undan. Alls voru 2.430 ný einkahlutafélög skráð á tímabilinu, borið saman við 2.105 á fyrri 12 mánuðum. Hlutfallsleg fjölgun nýskráninga var mest í fasteignaviðskiptum þar sem þeim fjölgar úr 222 í 383, eða um 73 prósent á síðustu 12 mánuðum.

Meðal annarra greina þar sem nýskráningum hefur fjölgað má nefna byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð þar sem nýskráningum fjölgaði úr 236 í 299 (27 prósent) og leigustarfsemi og ýmsa sérhæfða þjónustu þar sem fjölgunin var úr 153 í 185 nýskráningar (21 prósent). Mest hlutfallsleg fækkun nýskráninga síðustu 12 mánuði var í upplýsingum og fjarskiptum, eða um 8 prósent frá fyrra tímabili (úr 190 nýskráningum í 174).






Fleiri fréttir

Sjá meira


×