Viðskipti innlent

Rekstur Nóatúns settur í sérstakt félag

Ingvar Haraldsson skrifar
Í Austurveri er eina Nóatúnsverslunin sem eftir stendur.
Í Austurveri er eina Nóatúnsverslunin sem eftir stendur. fréttablaðið/gva
Festi, sem á verslanir Krónunnar, Kjarvals og Nóatúns, hefur skipt rekstri þeirra upp í tvö félög. Krónan og Kjarval verða áfram reknar í félaginu Kaupási ehf. en Nóatún verður rekið í sérstöku félagi, Nóatúni ehf.

„Það er verið að aðskilja reksturinn þannig að Krónan verði rekin sér og Nóatún sér til að einfalda fyrirkomulagið,“ segir Jón Björnsson, forstjóri Kaupáss og Festa.

„Þetta er hluti af því sem við byrjuðum á í fyrra. Þá lokuðum við fjórum Nóatúnsbúðum og opnuðum Krónubúðir í þremur þeirra. Við höfum svo haldið áfram að reka eina Nóatúnsverslun í Austurveri. Við höfum aðeins breytt starfsemi þeirrar búðar og gert hana sjálfstæðari þannig að fólkið sem stjórnar henni er á gólfinu,“ segir Jón.

Þar sem Nóatún sé ekki lengur keðja líkt og Krónan hafi þótt þægilegra að setja rekstur Nóatúns í sérfélag.

Jón segir að ekki standi til að gera breytingar á eignarhaldi Nóatúns samhliða stofnun hins nýja félags.

Festi rekur einnig verslanir Inter­sport og ELKO auk vöruhússins Bakka. Stærsti hluthafi Festa er SÍA II, sjóður í rekstri Stefnis, með 27 prósenta hlut. Hluthafar sjóðsins eru lífeyrissjóðir, fjármálafyrirtæki og fagfjárfestar. Þar að auki eiga lífeyrissjóðir 31 prósents hlut í Festi, tryggingafélög og sjóðir eiga 15 prósent og einkafjárfestar eiga um 26 prósent. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×