Innlent

Cameron stendur höllum fæti vegna mótmælanna á Íslandi

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Þúsundir mótmælenda komu saman í Lundúnum í dag til að krefjast afsagnar David Cameron forsætisráðherra landsins vegna tengsla hans við skattaskjól. Stjórnmálafræðiprófessor segir Cameron standa höllum fæti í Bretlandi vegna atburða síðustu daga og mótmælanna á Íslandi.

Í Panamaskjölunum koma fram upplýsingar sem tengja David Cameron við aflandsfélög í skattaskjólum en faðir hans heitinn, Ian Cameron, stofnaði félag á Bahama-eyjum á níunda áratug síðustu aldar sem gerði honum kleift að forðast skattgreiðslur á Bretlandseyjum. Cameron hefur nú viðurkennt að hafa hagnast á félagi föður síns þegar hann seldi sinn hlut fjórum mánuðum áður en hann varð forsætisráðherra. Áður hafði hann neitað því í viðtali að tengjast aflandsfélögum á nokkurn hátt.

Mikill þrýstingur hefur verið á Cameron undanfarna daga. Boðað var til mótmæla og kröfugöngu í vikunni þar sem breskur almenningur var hvattur til að koma saman að íslenskri fyrirmynd og krefjast afsagnar forsætisráðherrans.

Eiríkur Bergmann, stjórnmálafræðiprófessor, segir augljóst atburðir síðustu daga hér á landi hafi haft mikil áhrif á stöðu David Cameron. 

„Það er alveg augljóst mál að hann virtist ætla að sigla nokkuð lygnan sjó í gegnum málið og tókst framan af að víkja sér undan spurningunum. Svo þegar athyglin færðist á Austurvöll á Íslandi og íslenski forsætisráðherrann sagði af sér, þá varð það til þess að blása nýju lífi í gagnrýnisraddirnar á Bretlandi. David Cameron stendur augljóslega höllum fæti í Bretlandi, sumpart og að töluvert miklu leyti vegna mótmælanna á Íslandi,“ segir Eiríkur Bergmann.


Tengdar fréttir

Cameron í kröppum dansi út af Panamaskjölunum

David Cameron forsætisráðherra Bretlands er í vandræðum vegna Panamaskjalanna eins og fleiri stjórnmálamenn og fyrirmenni. Skjölin leiða í ljós að faðir hans heitinn, Ian Cameron, kom upp aflandsreikningum sem gerðu honum kleift að forðast skattgreiðslur á Bretlandseyjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×