Lífið

List í öllum hornum

Viktoría Hermannsdóttir skrifar
Hér má sjá hluta listamannanna sem sýna á Listahátíð Vinnslunnar í kvöld. ?
Hér má sjá hluta listamannanna sem sýna á Listahátíð Vinnslunnar í kvöld. ? Fréttablaðið/Ernir
Við fyllum öll rými Tjarnarbíós með list í öllum hornum,“ segir Vala Ómarsdóttir úr listahópnum Vinnslunni sem stendur að sinni árlegu listahátíð í Tjarnarbíói í kvöld. Á þriðja tug listamanna sýna verk sín en öll rými hússins verða vettvangur listflutnings, hvort sem um er að ræða leiksvið, skrifstofur eða salerni. "Við erum sjö í hópnum en einu sinni á ári bjóðum við öðrum listamönnum að sýna með okkur og búum til utan um það heildarupplifun fyrir áhorfandann,“ segir Vala. Á dagskrá verður myndlist, lifandi tónlist, gjörningar, dans, leikhúsverk, myndbandslist og fleira. Síðastliðin þrjú ár hefur Vinnslan staðið fyrir níu samsýningum og hafa 250 listamenn úr öllum listgreinum tekið þátt. Sérstök áhersla er lögð á verk í vinnslu eða þróunarstarf, rannsóknir og tilraunir listamanna. Meðal listamanna sem sýna eru þau Sigga Soffía, Stafrænn Hákon, Mikael Lind, Körrent Kúltúr, Quest, Harpa Rún Ólafsdóttir, Einar Indra og Elín Anna Þórisdóttir. „Það er mjög skemmtileg upplifun að ganga í gegnum þetta flotta gamla hús og sjá mismunandi listform í gangi í hverju horni,“ segir Vala. Hátíðin var fyrst haldin árið 2012 og er orðið sífellt vinsælla að vera með. Fjölmargir sækja hátíðina. „Það hefur verið fullt út úr dyrum öll árin. Núna sóttu svo margir um að vera með að við erum alveg að sprengja húsnæðið utan af okkur,“ segir Vala. Dagskráin hefst klukkan 19.30 og stendur til klukkan 23. Kvöldið endar svo með tónleikum með hljómsveitinni Quest. „Við höfum haldið þessa hátíð á þessum tíma þar sem það er tilvalið að dansa sig inn í vorið og endum því kvöldið með tónleikum.“





Fleiri fréttir

Sjá meira


×