Fótbolti

Heimir pantaði pitsu á bekkinn þegar hann spilaði með ÍBV

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Menn verða að borða.
Menn verða að borða. vísir/getty
Heimir Hallgrímsson, annar landsliðsþjálfara íslenska karlalandsliðsins í fótbolta, viðurkennir að hafa pantað pitsu í miðjum leik þegar hann spilaði með ÍBV á sínum yngri árum.

Frá þessu greinir Heimir á fótbolti.net þar sem hann og Lars Lagerbäck svara spurningum lesenda síðunnar um allt sem tengist landsliðinu og fótbolta almennt.

Heimir, sem þjálfaði ÍBV frá 2006-2011, spilaði með uppeldisfélaginu á árunum 1986-1992 og svo aftur frá 1994-1996 eftir stutt stopp í Hetti árið 1993.

„Já, sekur en ekkert stoltur,“ svarar Heimir aðspurður hvort það sé satt að hann hafi pantað sér pitsu á varamannabekk ÍBV í miðjum leik. Spurningin kemur frá Jónasi Bergsteinssyni.

„Jói [Jóhannes Ólafsson, stjórnarmaður] stoppaði hana samt á leiðinni á bekkinn. Þetta átti að vera grín, við vorum svo sem ekki svangir. Við vorum fjórir leikmenn sem kölluðum okkur bumbugengið; ég, Yngvi Borgþórs, Sumarliði Árna og Bjarnólfur Lárusson.“

„Við vorum allir á varamannabekknum í þessum leik og fannst rosa fyndið að panta pitsuu á bekkinn. Jói snéri pitsusendilinn niður á leiðinni, eðlilega hafði hann ekki sama húmor fyrir þessu og við,“ segir Heimir Hallgrímsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×