Lífið

Draumaeyjan Tortola

Guðrún Jóna Stefánsdóttir skrifar
Tortola ein af Bresku jómfrúreyjunum í Karíbahafinu.
Tortola ein af Bresku jómfrúreyjunum í Karíbahafinu. Nordicphotos/Getty
Við könnumst flest við nafnið Tortola í tengslum við félagið Wintris Inc. sem er í eigu Önnu Sigurlaugar Pálsdóttur eiginkonu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar.

Tortola er ein af eyjunum sem tilheyra eyjaklasanum sem nefnist Bresku Jómfrúareyjar. Maður gæti ímyndað sér að Tortola væri svolítið í stíl við Las Vegas, en svo er ekki. Tortola er eiginlega frekar lítil eyja sem var lengi griðastaður sjóræningja.

Hvernig kemst maður á áfangastað?

„Að komast til Tortóla frá Íslandi er nánast alltaf um Ameríku og þá helst New York og þaðan til San Juan í Puerto Rico, svo áfram til Tortola eða Beef Island, þar sem flugvöllurinn er (EIS),“ segir Eva Björk þjónustufulltrúi ferðaskrifstofunnar Vita aðspurð hver auðveldasta ferðaleiðin væri til Tortola.

Tortola er ein af Bresku Jómfrúar­eyjum staðsett í Karíbahafinu. Eyjan er tuttugu kílómetra löng og fimm kílómetrar á breidd. Veðrið þar er með eindæmum gott enda er um að ræða hitabeltiseyju. En ætli Tortola sé vinsæll ferðamannastaður.

„Tortola er ekki vinsæll áfangastaður, við myndum ekki segja að þetta væri týpískur sumarleyfisstaður, það er lítið um að vera þarna,“ segir Eva Björk.

X Factor-stjarnan Melanie Amaro sem hún ólst upp á Tortóla frá þriggja ára aldri.Nordicphotos/Getty
Ferðalagið tekur allt að 14 klukkutímum en það fer að sjálfsögðu eftir því hvaða ferðaleið er valin. Verðið er í kringum 180.000 krónur.

„Verð fer auðvitað alltaf eftir stöðu véla og bókunarfyrirvara en við teljum að lágmarksverð sé um 180.000 kr. fyrir fullorðinn og alveg uppúr og um 140.000 kr. fyrir barn. Ef ferðast er á hærri farrýmum, t.d. business class þá er verðið um 480.000 kr. Flugtíminn til Tortola er um 14 tímar,“ segir Eva Björk.

En ætli Vita sé nú þegar búin að bóka mikið af ferðum til draumaeyjunnar?

„Varðandi hvort við höfum bókað ferðir þangað þá erum við bundin þagnarskyldu og getum því miður ekki gefið upplýsingar um það,“ segir Eva Björk.

Stórstjörnur frá eyjunni

Fyrsti sigurvegari The X Factor í Bandaríkjunum er engin önnur en Tortola stjarnan, Melanie Amaro, en hún ólst upp á Tortola frá þriggja ára aldri eftir að hún flutti til ömmu sinnar og afa þar sem foreldrar hennar gátu ekki séð fyrir henni.

Tónlistarferill Amaro hefur heldur betur verið skrautlegur en frá því að móðir hennar fékk hana til að taka þátt í X factor hefur allt verið á uppleið. Amaro féll út í sextán liða úrslitum. En aðeins nokkrum dögum seinna mætti sjálfur Simon Cowell heim til hennar og bauð henni að vera með áfram eftir að hann áttaði sig á því að hann hafi gert risastór mistök.

Simon sá ekki eftir því enda stóð Tortola-stjarnan uppi sem sigurvegari og hlaut fimm milljón dollara plötusamning við Sony Music og Syco Music.

Hip Hop stórstjarnan Keid­ran Jones, betur þekktur sem Iyaz kemur frá Tortola.

Iyaz fékk plötusamning hjá Beluga Heights Records árið 2010 eftir að hann var uppgötvaður í gegnum Myspace síðuna sína. Síðan þá hefur heldur betur mikið vatn runnið til sjávar en eitt af hans vinsælustu lögum Replay var í fyrsta sæti á Billboard Hot 100 listanum í Bretlandi.

Iyaz hefur hlotið gífurlega athygli fyrir lög sín. Nýjasta lag kappans Alive er nú fáanlegt á Itunes.

Hip hop stjarnan Iyaz.
Tíu staðreyndir um Tortóla

1. Staðurinn er meðal annars þekktur fyrir frábærar strendur þar sem hægt er að læra að synda með höfrungum, kafa, snorkla og læra á brimbretti.

2. Hægt er að fá alls konar mat, meðal annars ítalskar pitsur, pasta, dýrindis sjávarrétti, ásamt heimagerðu kaffi sem fólk virðist vera einkar hrifið af.

3. Fyrsti Evrópumaðurinn sem kom til eyjunnar var Kristófer Kólumbus en hann kom þangað árið 1493. Hann gaf eyjaklasanum nafnið Jómfrúrnar.

4. Spænska heimsveldið gerði tilkall til eyjunnar en stofnaði ekki nýlendu þar. Næstu ár tókust Spánn, Holland, England og Danmörk á um yfirráð yfir eyjunni.

5. Hollendingar stofnuðu byggð á Tortóla árið 1648.

6. Á 18. öld voru fluttir þangað þrælar frá Afríku til að vinna á sykurplantekrum.

7. Tortóla var lengi griðastaður fyrir sjóræningja og þar ríkti hálfgert stjórnleysi alla 18. öldina.

8. Árið 1960 varð Tortóla sjálfstæð nýlenda og árið 1967 fékk eyjan heimastjórn. Frá þeim tíma hefur efnahagur eyjunnar vænkast, aðallega vegna fjármálaþjónustu.

9. Yfir hundrað veitingastaði er að finna á Tortóla.

10. Eyjan var fyrst byggð 100 fyrir Krist, þótt menjar hafi fundist um byggð indíána á eyjunum frá 1500 fyrir Krist.



Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 7. apríl.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×