Lífið

Stefna ekki á heimsyfirráð

Stefán Þór Hjartarson skrifar
Stephen Shannen, Ólafur Ingi Stefánsson og Bobby Breiðholt, þrír af fjórum meðlimum Make.
Stephen Shannen, Ólafur Ingi Stefánsson og Bobby Breiðholt, þrír af fjórum meðlimum Make. Vísir/Vilhelm
„Make er hjólabrettakompaní. Við erum nokkrir félagar sem höfum áhuga á hjólabrettum og við ákváðum að stofna smá félagsskap í kringum áhugamálið,“ segir Björn Þór Björnsson, eða Bobby Breiðholt eins og hann er oftast nefndur.

„Við þekkjumst allir lauslega, kynntumst innan senunnar og vildum gera eitthvað skapandi en stofnuðum þetta félag í raun aðallega sem afsökun til að fara út að skeita og taka myndir saman.“ Bobby sér að mestu leyti um hönnunina en hjá Make ríkir mikið jafnræði og þeir vinna allir saman sem hugmyndasmiðir.

Bobby segir Make starfa að fyrirmynd evrópskra hjólabrettafyrirtækja; þeir stefna á gæði fram yfir magn. „Við stefnum alls ekki á heimsyfirráð, við ætlum að vera með mjög lítið upplag af öllu og leggjum frekar áherslu á flottar vörur,“ útskýrir Bobby. „Við viljum ekki vera eins og stóru fyrirtækin í LA sem selja fjöldaframleitt dót úti um allan heim,“ bætir hann við.

Make ætla sér að taka upp hjólabrettamyndbönd, hanna og framleiða boli og gefa út mikið magn af límmiðum, auk þess sem þeir vilja koma á markað varahlutum fyrir hjólabretti, svo sem skrúfum í fagurlega skreyttum umbúðum. Úti í heimi tíðkast það að fyrirtæki tengd hjólabrettaiðnaði tengi sterka hönnun við vörur sínar, jafnvel þó að um smáhluti eins og legur eða skrúfur sé að ræða. 



Hjólabrettaplata og límmiði frá Make
Mikil hefð er líka innan senunnar fyrir því að gefa út alls konar límmiða og þar fær oft sköpunargleðin lausan tauminn hjá hönnuðum. Þessi fyrirtæki gefa oft út hjólabrettamyndbönd þar sem skeitarar, sem eru kostaðir af fyrirtækinu eða eru starfsmenn þess, koma fram og sýna listir sínar.

„Við ætlum að vera „underground“ hjólabrettafélag, það er auðvelt í dag með hjálp internetsins, það þarf ekki að vera með spons frá stórfyrirtækjum lengur.“

Hjólabrettasenan á Íslandi er nú orðin nokkuð gömul og í Make má segja að hittist fyrir tvær kynslóðir „skeitara“, sem allir eiga það þó sameiginlegt að hafa verið viðloðandi hjólabrettaíþróttina frá barnæsku og eru þess vegna nokkuð samstilltir í sínu áhugamáli.

„Í dag er mikill vöxtur í íþróttinni. Frá 1995 og til svona 2005 var mikið að gerast en svo kom smá lægð – en núna er mikil gróska aftur. Aðstaðan er rosalega góð í dag; bæði eru Brettafélag Reykjavíkur og Hafnarfjarðar með góða innanhússaðstöðu sem hjálpar mikið til hér á Íslandi þar sem er ekkert hægt að skeita meirihluta ársins. Það eru líka mjög góðir hjólabrettagarðar um allt land. Það eru nokkrir strákar sem eru að reyna fyrir sér sem atvinnumenn núna, afreksfólkið þarf ekki allt að vera í fótbolta og handbolta,“ segir Bobby og bætir við að komandi sumar verði „skeitsumarið mikla“.

Make má finna á Facebook, Instagram og tumblr






Fleiri fréttir

Sjá meira


×