Fótbolti

Tuchel: Klopp fær blíðar móttökur en við ætlum að vinna leikinn

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Jürgen Klopp mætir á sinn gamla heimavöll á morgun.
Jürgen Klopp mætir á sinn gamla heimavöll á morgun. vísir/getty
Tomas Tuchel, þjálfari þýska liðsins Dortmund, býst ekki við öðru en að Jürgen Klopp fái hressilegar og blíðar móttökur þegar hann snýr aftur á Westfalen-völlinn annað kvöld.

Liverpool heimsækir Dortmund í átta liða úrslitum Evrópudeildarinnar á morgun en þetta er í fyrsta sinn sem Klopp snýr aftur á sinn gamla heimavöll sem þjálfari annars liðs.

Klopp er dýrkaður og dáður hjá stuðningsmönnum Dortmund fyrir að vinna deildina í tvígang og komast í úrslitaleik Meistaradeildarinnar á þeim sjö árum sem hann stýrði liðinu.

„Það kæmi mér á óvart ef Klopp fengi eitthvað annað en hlýjar móttökur. Hann á það skilið,“ sagði Tomas Tuchel, þjálfari Dortmund, á blaðamannafundi í dag.

„Hann stóð sig frábærlega hérna og ég er 100 prósent viss um að enginn er búinn að gleyma því sem hann gerði eða gleyma honum. Það er ekki nauðsynlegt fyrir okkur að gleyma afrekum hans eða leggja þau til hliðar.“

„En ég skal segja ykkur það, að Jürgen er mjög kappsfullur maður og mjög kappsfullur þjálfari. Um leið og leikurinn verður flautaður á mun hann bara vilja vinna leikinn og það sama gildir um okkur,“ segir Tomas Tuchel.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×