Viðskipti innlent

Tokyo sushi vinsælastur

Sæunn Gísladóttir skrifar
Tokyo Sushi var með 17,1 prósents markaðshlutdeild meðal tíu vinsælustu veitingastaða í Reykjavík.
Tokyo Sushi var með 17,1 prósents markaðshlutdeild meðal tíu vinsælustu veitingastaða í Reykjavík. Vísir/Stefán
Tokyo Sushi var sá veitingastaður landsins sem Íslendingar versluðu mest við á þriggja mánaða tímabili sem náði til loka febrúar. Samkvæmt niðurstöðum Meniga nam markaðshlutdeild veitingastaðarins 17,1 prósenti meðal tíu vinsælustu veitingastaða Reykjavíkur og jókst hún um 0,6 prósent milli ára.

Í öðru sæti var Snaps Bistro sem var með 10,8 prósenta markaðshlutdeild, en tapaði 4,2 prósenta hlutdeild milli ára. Í þriðja sæti var svo VOX á Hilton Nordica. Sushi er greinilega vinsæll réttur meðal notenda Meniga en þrír af tíu vinsælustu stöðunum eru sushi-staðir og eiga þeir 36,1 prósents markaðshlutdeild meðal tíu vinsælustu veitingastaðanna.

Milli ára bætti Sushisamba við sig mestri markaðshlutdeild eða 1,4 prósentum. Á eftir Snaps lækkaði markaðshlutdeild Grillmarkaðarins mest, eða um 2,1 prósent.





Vegamót er vinsælasti staðurinn meðal yngsta aldurshópsins 16 til 25 ára, með 23 prósenta markaðshlutdeild. Tokyo Sushi er vinsælastur meðal aldurshópanna 26 til 55 ára, en 56 ára og eldri sækja mest VOX.

Það kemur ekki á óvart að yngsti aldurshópurinn ver lægstri upphæð þegar hann fer út að borða, eða 2.667 krónum að meðaltali, 46-55 ára hópurinn eyðir mestu, eða 5.347 krónum.

Ljóst er að mikill munur er á uppáhaldsstöðum Íslendinga og ferðamanna í Reykjavík. Engan af vinsælustu veitingastöðunum samkvæmt niðurstöðum Meniga er að finna á topp tíu vinsælustu stöðum í Reykjavík samkvæmt TripAdvisor. TripAdvisor er ferðasíða sem ferðamenn nýta sér til að finna veitingastaði, hótel og afþreyingu á ferðalögum. Þeir geta svo gefið einkunn eftir ánægju. 

Þegar litið er á topp tuttugu listann á TripAdvisor má hins vegar sjá tvo veitingastaðina sem vinsælastir eru samkvæmt niðurstöðum Meniga; Grillmarkaðinn og Apótekið.

Úrvinnsla Meniga byggir á tölfræðilegum samantektum sem aldrei eru persónugreinanlegar. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×