Lífið

Eigum nóg af hæfileikaríkum börnum

Guðrún Jóna Stefánsdóttir skrifar
Bergur Þór Ingólfsson gerir nýja leikgerð ásamt því að leikstýra.
Bergur Þór Ingólfsson gerir nýja leikgerð ásamt því að leikstýra. vísir/Stefán
Það eru allir velkomnir í prufurnar, allir krakkar á aldrinum átta til fjórtán ára sem hafa áhuga á því að vera í leikhúsi. Ég veit að það er fullt af krökkum sem geta alveg helling, og það er gaman að sjá hvað börn geta staðið með hæfileikum sínum,“ segir Bergur Þór Ingólfsson leikstjóri, en Borgarleikhúsið leitar nú að 22 börnum til að leika í fyrstu uppsetningu næsta leikárs sem er Sagan af bláa hnettinum eftir Andra Snæ Magnason.

Skráning í prufurnar verður í Borgarleikhúsinu í dag milli kl 15.00-17.00, en prufurnar sjálfar fara fram á fimmtudag til sunnudags og svo aftur í næstu viku.

„Það tekur tíma að fara í gegn um fyrsta hollið, við eigum von á fullt af börnum þar sem viðbrögðin við prufunum eru góðar og fullt af krökkum bíða spenntir eftir að fá að spreyta sig. Það er nauðsynlegt að börnin mæti með foreldrum sínum í skráninguna þar sem tekin verður mynd af þeim og þau fá svo númer svo hægt sé að raða þeim niður í hópa,“ segir Bergur Þór.

Sagan af bláa hnettinum er ein víðförlasta barnabók síðari ára, en hún fjallar um börn sem búa á bláum hnetti langt úti í geimnum. Dag nokkurn birtist vera sem umturnar áhyggjulausu lífi þeirra og leiðir þau í háskalega ferð.

„Þetta verður barnasöngleikur og börnin koma til með að halda uppi sýningunni. Við eigum alveg helling af hæfileikaríkum börnum,“ segir Bergur Þór.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×