Sigmundur Davíð hefur hins vegar engar verulegar áhyggjur af þessu. Hann var í viðtali í Bítinu á Bylgjunni í morgun. Hann hefur verið á forsíðum erlendra blaða með einræðisherrum og alræmdum fjárglæframönnum en hann telur það ekkert sérstakt áhyggjuefni, þá sé litið til ímyndar Íslands.
„Nei, ég hef það nú ekki. Ég tel aðalatriðið í þessu að koma réttum upplýsingum á framfæri. Það er gott til þess að vita að margir þessara fjölmiðla, að minnsta kosti þessir sem teljast virðulegri, taka fram hvers eðlis málið er,“ segir Sigmundur: „Auðvitað slá menn helst upp myndum af þeim sem eru í tilteknum stöðum eða eru þekktir, frægir íþróttamenn og fólk úr ýmsum störfum sem eru til þess fallin að gera þau að myndefni.“ Í sjónvarpsfréttum RÚV í gær kom fram að Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra hafi verið spurður um það, þar sem hann er staddur á Indlandi, um stöðu Sigmundar Davíðs, og var þá þungt í utanríkisráðherra hljóðið. Gunnar Bragi hundskammar alþjóðlega fjölmiðla. „Það er mjög undarlegt að klína andliti hans á veggspjald ásamt einhverjum glæpamönnum úti í heimi,“ sagði utanríkisráherra Íslands. „Það er ósanngjarnt, óháttvíst og ætti ekki að sjást. Forsætisráðherra minn hefur ekkert rangt gert.“
Og í Morgunútvarpi Rásar 2 var Jón Ásbergsson hjá Íslandsstofu í viðtali og hann telur ekki líklegt að það verði langtíma skaði af þessu máli. Bananalýðveldi og spillingarbæli? „Neineineinei, að svo miklu leyti sem Ísland hefur einhverja mynd erlendis. Einhverja ímynd, þá tengist hún þessum náttúrlegum fyrirbærum. Og það eru spilltir og vandræðalegir stjórnamálamenn víðar en á Íslandi. Þetta er bara hluti af því sem er að gerast og ég held að við höfum ekki tapað neinni sérstakri ímynd,“ segir Jón og telur að mikið þurfi að koma til.
Mýtan um Ísland viðkvæm
En, það verður ekki hjá því litið að Ísland hefur verið í brennidepli heimspressunar. Vísir hefur gert skilmerkilega grein fyrir því og alltaf bætist í sarpinn. Ekki þarf annað en líta til forsíðu Financial Times nú í morgun.

Mikilvægt að endurvekja traust
Hjörtur rekur að undanfarið hafi verið byggt á mýtu, sem reyndar sé ekki rétt, að eftir hrun hafi ríkisstjórn verið komið frá, bankamenn fangelsaðir og ný stjórnarskrá samin. Það hafi hins vegar ekki komið fram að gömlu stjórnarflokkarnir, reyndar með nýju fólki, hafi verið kosnir til valda og nýrri stjórnarskrá var hent í ruslið.
„Maður hefði kannski vonast til þess að með nýju fólki um borð þá séu kannski komnir nýir starfhættir. Það var það sem Sigmundur sjálfur talaði um í viðtali við sænska sjónvarpið; hvað það er mikilvægt að endurvekja þetta traust á stofnununum innan samfélagsins. Það á sérstaklega við inná við. En það á líka við útá við, úti í heimi, þegar við erum að tala um viðskiptalífið. Og það er mjög mikilvægt að við getum endurvakið traustið á viðskiptalífi Íslands. Þannig að íslensk fyrirtæki geti aftur fengið erlent fjármagn inní fyrirtækin, þau geti náð sölusamningnum og þetta skiptir verulegu máli íslenskt efnahagslíf.“
Í flokki með spilltum einræðisherrum
Og, Hjörtur telur engan vafa leika á því að róðurinn verður miklu þyngri fyrir íslensk fyrirtæki eftir en áður.
„Enginn vafi á því. Maður getur litið á það þannig að svona geti gerst einu sinni. Og þá er það kannski ekki eitthvað sem er til merkis um að svona séu Íslendingar almennt, en þegar svona gerist ítrekað, þó þetta sé kannski ekki jafngildi hrunsins, þá er verið að setja íslenska forsætisráðherrann í alþjóðlegum fjölmiðlum á sama stall og einræðisherra einhvers staðar úti í heimi sem þykja mjög spilltir. Og eru þannig að margir veigra sér við að fara í viðskipti við. Og það er mjög alvarlegur hlutur.“
Hjörtur telur að Sigmundur hljóti, ef hann líti á málið út frá þessu sjónarhorni, hversu miklum skaða hann er í raun að valda, að geta séð að hann væri að gera öllum greiða með að víkja: „bæði sjálfum sér og samfélaginu öllu; efnahagslífinu og trúnni á íslenskt efnahagslíf, með því að víkja. Það væri það eina rétta. Þegar maður hugsar um orðspor Íslands.“
Siðlaus Landsbanki og enginn segir neitt
Þó enginn vafi leiki á um það, í huga Hjartar, að efnahagslegur skaði blasi við sé erfitt að meta umfang hans. Geti bara verið getgátur. Hann bendir á að fáar myntir séu þannig að þær séu ónothæfar utan landsteina. Og það sýni hina veiku efnahagslegu stöðu.

Í flokki með Nígeríu
Hjörtur furðar sig á þessu kæruleysi: „Hér í Danmörku, þar sem ég bý, eru stjórnmálamenn brjálaðir vegna þess að Nordea banki hefur verið umsvifamikill í þessu. Það er enginn í íslenskum stjórnmálum sem hefur gagnrýnt bankana fyrir þetta. Því fólk er farið að ganga út frá því að svona virki íslenskir bankar. Þeir eru siðlausir. Þetta þykir siðlaust í viðskiptalífi Evrópu. Og ef við ætlum reyna að byggja upp trúverðugleika fyrir okkar fyrirtæki í viðskiptum í Evrópu þá er það erfitt ef við beitum aðferðum sem þykja siðlausar í Evrópu. En okkur þykir það bara allt í lagi. Það hefur engar afleiðingar.“
Hjörtur setur upp dæmi, ímynda má sér að tveir menn koma til þín með frábært tilboð. Annar er frá Nígeríu og hinn frá Noregi. Hvernig viðbrögð fengju þeir að teknu tilliti til þess að Noregur hefur á sér gott orð en sá frá Nígeríu ætti erfiðara uppdráttar. Þó margir heiðarlegir Nígeríumenn finnist er Nígería þekkt fyrir svikamál. „Nú er Ísland komið í sömu stöðu.“