Það eru hins vegar fleiri stjórnmálamenn nefndir í skjölunum, allt frá borgarfulltrúa að lektor í skattarétti. Á vefsíðu Reykjavík Media er sagt frá sjö stjórnmálamönnum.
Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, fyrrverandi borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, er skráð fyrir félagi á eyjunni Tortóla sem þekkt er sem paradís skattaskjólanna. Félagið heitir Ravenna Partners og kemur fram á Reykjavík Media að allt hlutafé félagsins hafi verið skráð á hana og mann hennar í ágúst 2005.

Þá er hin umdeilda Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir nefnd í gögnunum en hún tengist tveimur aflandsfélögum, annað er skráð á Tortóla og hitt á Panama. Félagið á Panama ber nafnið Ice 1 Corp, það er í eigu einkahlutafélagsins P-10 ehf. þar sem Sveinbjörg er skráður stjórnarformaður. „Samkvæmt nýjasta ársreikningi P-10 ehf. á félagið íbúðir í byggingu í Panama að verðmæti 177.625.050 króna,” segir á vefsíðu Reykjavík media. Sveinbjörg segist hafa talið að búið væri að slíta félaginu.
Eins og fram hefur komið stofnaði Júlíus Vífill Ingvason aflandsfélag í Panama árið 2014. Í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér á föstudag kemur fram að hann hafi hugsað sjóðinn í eftirlaunatilgangi. Kristján Gunnar Valdimarsson, lektor í skattarétti við Háskóla Íslands, kom fram í kvöldfréttum Stöðvar 2 1. apríl síðastliðinn og lýsti því yfir að ekkert skattalegt hagræði fælist í því að eiga félag í skattaskjóli. Hann sagði ákvæði í skattalögum koma í veg fyrir það. Í umfjöllun Reykjavík Media kemur fram að hann hafi verið milliliður Júlíusar Vífils um stofnun fyrrnefnds félags hans í Panama.