Sport

Eygló Ósk með brons í tveimur greinum á opna mótinu í Stokkhólmi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eygló Ósk Gústafsdóttir.
Eygló Ósk Gústafsdóttir. Vísir/Anton
Eygló Ósk Gústafsdóttir, Íþróttamaður ársins 2015, varð í þriðja sæti í tveimur greinum á opna Stokkhólmsmótinu í sundi sem stendur nú yfir.

Eygló Ósk fékk brons í bæði 100 og 200 metra baksundi. Eygló var ekki nálægt sínu bestu tímum en hún syndir óhvíld, tekur þetta sem æfingamót, á meðan margir hafa þurft að hvíla fyrir þetta mót til að ná góðum tímum.

Swim Open Stockholm er mjög sterkt mót og margir sundmenn keppa þar sem eru að reyna bæði við Ólympíulágmörk sem og að ná lágmörkum fyrir Evrópumeistaramótið í 50 m laug sem verður haldið í London í maí.

Eygló Ósk synti 200 metrana á 2:11,06 mínútur var þá á eftir þeim Margheritu Panziera frá Ítalíu (2:09.76 mínútur) og Anastasiiu Fesikovu frá Rússlandi (2:10.48 mínútur).

Eygló Ósk var fyrst eftir 50 metra á 30,81 sekúndum en var búin að missa þær báðar framúr sér eftir hundrað metra.  Íslandsmet hennar er 2:09,04 mínútur.

Eygló Ósk synti 100 metrana á 1:00.91 mínútum var þá á eftir þeim Anastasiiu Fesikovu frá Rússlandi (1:00.24 mínútur) og Simonu Baumrtovu frá Tékklandi (1:00.50 mínútur). Eygló var önnur eftir 50 metra í sundinu.  Íslandsmet hennar er 1:00,25 mínútur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×