Lífið

Rokkað í kirkjunni

Viktoría Hermannsdóttir skrifar
Messan  verður með rokkuðu ívafi þar sem verða spiluð þekkt rokklög með trúarlegum textum. Hér má sjá hópinn sem kemur að messunni.
Messan verður með rokkuðu ívafi þar sem verða spiluð þekkt rokklög með trúarlegum textum. Hér má sjá hópinn sem kemur að messunni. Fréttablaðið/Pjetur
Tónlist er menningarleg umgjörð en boðskapur kirkjunnar er bara einn. Það er gaman að blanda þessu saman,“ segir Séra Kjartan Jónsson sóknarprestur í Ástjarnarkirkju, Hann ásamt Matthíasi V. Baldurssyni tónlistarstjóra standa fyrir rokkmessu í Víðistaðakirkju á sunnudag. Þar verða flutt klassísk rokklög með íslenskum kristilegum textum sem hljómsveitir eins og Guns´n´roses, U2, Janis Joplin, Whitesnake, Bon Jovi og Nazareth hafa gert fræg. Einnig verða fluttir sálmar úr sálmabókinni í rokkuðum útgáfum.

Kjartan hefur áður staðið fyrir óhefðbundnum messum þar sem tónlistin fær að njóta sín. „Þetta byrjaði meðU2 messu fyrir fimm árum og við héldum hana tvö ár í röð. Síðan höfum við mánaðarlega verið með tilraunamessur þar sem eru mismunandi þemu.“ Kjartan segir þetta hafa mælst vel fyrir. „Við erum að reyna prófa eitthvað nýtt til þess að höfða til fleiri. Fólk er rosalega ánægt með þessar tilraunir og það hefur verið vel mætt.“

Hann segist hafa verið spurður hvort ekki komi til greina að halda diskó og rappmessur. „Það kemur vel til greina. Ég er alveg til í að prófa mismunandi tónlistarform. Tónlist er alltaf menningarlega skilin og engin tónlist er guði meira þóknanleg en önnur. Ég er opinn fyrir því að prófa þetta en slæ ekkert af boðskapnum. Við höfum verið með texta sem eru svo góðir að þeir eru ekkert síðri en í sálmabókinni. Textar með trúarlegan boðskap og tengjast við lifað líf nútímans.“

Í messunni kemur fram kór Ástjarnarkirkju og hljómsveit skipuð þeim Friðriki Karlssyni, Sigurgeiri Sigmundssyni, Matthías V. Baldurssyni, Þorbergi Ólafssyni og Þóri Rúnari Geirssyni. Agnes M. Sigurðardóttir biskup prédikar í messunni sem hefst klukkan 20 á sunnudagskvöld.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×