Viðskipti innlent

Ekki viðvaningar á öllum póstum

Nú hefur Ólafur Ragnar Grímsson stigið inn í hringinn. Hann verður í kjöri til embættis forseta Íslands 25. júní næstkomandi. Hann er sitjandi forseti og verður að teljast mjög sigurstranglegur. Stóru fréttirnar í þeirri ákvörðun Ólafs Ragnars að bjóða sig fram felast ekki í því að hann bjóði sig fram í sjötta sinn heldur í forsendunum sem hann gefur fyrir framboðinu. Á blaðamannafundinum á Bessastöðum á mánudaginn kom fram hjá forsetanum að hann býst allt eins við pólitískri upplausn hér á landi í kjölfar þingkosninganna sem boðaðar hafa verið í haust. Ólafur Ragnar metur það sem raunhæfan möguleika að eftir kosningar verði illmögulegt eða jafnvel ómögulegt að Alþingi nái að mynda ríkisstjórn og því geti komið til kasta forseta að skipa utanþingsstjórn, sem væntanlega starfi þar til kosið yrði að nýju. Ólafur Ragnar hefur ítrekað sýnt að hann hefur næmt pólitískt innsæi. Heilar ríkisstjórnir og einstakir ráðherrar hafa vanmetið hann og haft verra af. Nægir að tína til fjölmiðlafrumvarp Davíðs Oddssonar og Icesave-samninga norrænu velferðarstjórnarinnar. Ekki er ofsagt að kalla Ólaf Ragnar klókasta stjórnmálafræðing landsins. Hann státar af doktorsnafnbót í greininni og átti stóran þátt í að byggja upp kennslu í faginu við Háskóla Íslands. Nú sér hann fram á stjórnmálakreppu. Ríkisstjórn með ríflegan þingmeirihluta treystir sér ekki til að sitja út kjörtímabilið, enda alvarlega löskuð vegna spillingarmála. Skoðanakannanir gefa til kynna að það verði langt í frá auðvelt að koma saman þinglegri stjórn eftir kosningarnar í haust, ef þær þá verða í haust. Þá kemur til kasta forsetans og segja má að hið eina sem Ólafur Ragnar á eftir að reyna á forsetastóli sé að skipa utanþingsstjórn. Hann veitti óvænta innsýn í þankagang sinn varðandi ráðherraskipan í slíkri stjórn þegar hann vísaði á bug kenningu fréttamanns um að hann hefði haft áform um að gera Má Guðmundsson seðlabankastjóra að fjármálaráðherra í utanþingsstjórn ef til þess hefði komið í kjölfar afsagnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar á dögunum. Sagðist Ólafur frekar myndu horfa til forsætisráðherrastóls fyrir seðlabankastjórann. Af orðum Ólafs Ragnars á mánudag má merkja að hann telur mikinn stjórnmálalegan óstöðugleika ríkja hér á landi og líkur á að sá vandi muni fremur aukast en hitt í kjölfar kosninga. Þetta er áhyggjuefni fyrir atvinnulífið og heimilin­ í landinu því stjórnmálalegur óstöðugleiki er ávísun á efnahagslegan óstöðugleika með tilheyrandi afleiðingum í verðtryggðu fjármálakerfi. Þetta eru ekki kjöraðstæður til að aflétta gjaldeyrishöftum og þetta er án efa vondur tími til að hafa viðvaninga á öllum póstum stjórnkerfisins.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×