Viðskipti innlent

Arctica Finance hagnast um 187 milljónir króna

ingvar haraldsson skrifar
Stefán Þór Bjarnason er framkvæmdastjóri Arctica Finance og næst stærsti hluthafi fyrirtækisins.
Stefán Þór Bjarnason er framkvæmdastjóri Arctica Finance og næst stærsti hluthafi fyrirtækisins.
Fjármálafyrirtækið Arctica Finance hagnaðist um 187,7 milljónir króna á síðasta ári en hagnaður fyrirtækisins jókst um 15 milljónir króna milli ára.

Alls námu rekstrartekjur 690 milljónum króna árið 2015 miðað við 677 milljónir árið 2014.

Þóknanatekjur jukust um 36 milljónir króna milli ára og námu 671 milljón. Þá jukust vaxtatekjur um tæpar 6 milljónir milli ára. Tekjur af verðbréfum lækkuðu úr 21,8 milljónum árið 2014 í 4,9 milljónir króna árið 2015

Rekstrarkostnaður nam 450 milljónum og lækkaði um 11 milljónir milli ára. Þar af námu laun og launatengd gjöld 253 milljónum króna.

Arctica Finance keypti fjármálafyrirtækið H.F. Verðbréf á síðasta ári. Með kaupunum eignuðust eigendur A hluta verðbréfa í H.F. Verðbréfum A hlutabréfi Arctica Finance að nafnverði 6 milljónum króna eða sem samsvarar um einum sjöunda alls hlutafjár í fyrirtækinu. Heildareignir H.F. Verðbréfa námu 203,6 milljónum króna og skuldir 93,1 milljón króna við samrunann.

Eignir Arctica Finance nema 724 milljónum króna, eigið fé 471 milljón króna og skuldir 253 milljónum króna.

Stærstu hluthafar í Arctica Finance eru Bjarni Þórður Bjarnason, aðstoðarframkvæmdastjóri fyrirtækisins, sem á tæplega helmingshlut og Stefán Þór Bjarnason framkvæmdastjóri sem á tæplega þriðjungshlut í fyrirtækinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×