Innlent

Verðtryggingin ekki afnumin á þessu þingi

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Þingmálalisti nýrrar ríkisstjórnar liggur enn ekki fyrir tíu dögum eftir að hún tók við og óvíst er hvenær hann verður tilbúinn. Forsætisráðherra segir að verðtryggingin verði ekki afnumin á þessu þingi.

Tæpar tvær vikur er síðan að ríkisstjórn Sigurðar Inga Jóhannssonar tók til starfa. Stjórnarandstaðan hefur kallað eftir því að þingmálalisti ríkisstjórnarinnar verði lagður fram svo ljóst sé hvaða mál hún ætli að klára á þessu þingi. Sigurður Ingi segir listann enn ekki ekki liggja fyrir. Stefnan sé tekin á að reyna að klára fjölmörg mál á þeim átján þingfundardögum sem eftir eru á þessu þingi.

„Húsnæðismálin hafa auðvitað verið í miklum forgangi og málin er snerta afnám hafta og slík tengd mál og svo eru önnur mál sem eru nú komin á ágætan skrið í þinginu. Við munum væntanlega eiga samtal fljótlega eftir helgina við forseta þingsins og vonandi líka stjórnarandstöðuna um framhaldið. Ég held eitt af því sem að sé nokkuð augljóst að þurfi að gera það er að fara yfir starfsáætlun þingsins,“ segir Sigurður Ingi.

Sigurður Ingi ræddi málið í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun. Þar sagði hann að það stæði ekki til að afnema verðtrygginguna á þessu þingi þar sem of mikil andstæða væri við málið innan annarra flokka. Sigurður Ingi er enn ekki tilbúinn að verða við kröfum stjórnarandstöðunnar um að setja dagsetningu á kosningarnar í haust. „Það er auðvitað eins og við höfum áður sagt í samspili við það hvernig þessi mál ganga fram og ég vænti þess að við getum átt áframhaldandi gott samstarf um það meðal annars við stjórnarandstöðuna,“ segir Sigurður Ingi.

Landsstjórn Framsóknarflokksins ákvað í gær að boða til miðstjórnarfundar í vor. Þar skýrist hvort flokksþingi og þar með forystukjöri verði flýtt. Sjálfur segist hann ekki hafa íhugað að bjóða sig fram til formanns Framsóknarflokksins.

 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×