Innlent

Óttast að tala látinna í Japan eigi eftir að hækka enn frekar

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Eyðilegging í Kumamoto eftir jarðskjálftann í gær.
Eyðilegging í Kumamoto eftir jarðskjálftann í gær. vísir/getty
Að minnsta kosti 18 létust í gríðarlega öflugum jarðskjálfta sem reið yfir suðvesturhluta Japans í gær. Embættismenn í Kumamoto, en jarðskjálftinn átti upptök sín á 10 kílómetra dýpi skammt frá borginni, segja að tala látinna muni að öllum líkindum hækka með hverri klukkustund. Þannig eru hundruð manna slasaðir og óttast er að tugir séu fastir í rústum bygginga sem hrundu í skjálftanum.

Vegir hafa skemmst og gríðarstórar aurskriður hafa fallið á stórum svæðum en spáð er rigningu á svæðinu svo talið er að fleiri aurskriður muni falla með tilheyrandi tjóni. Þá þurfti að rýma heilt þorp þar sem stífla brast í kjölfar skjálftans.

200.000 heimili eru án rafmagns og hefur japanski herinn sent liðsauka á svæðið sem verst varð úti í skjálftanum til að aðstoða lögreglu og slökkvilið við björgunarstörf.

 

Annar stór jarðskjálfti varð á sömu slóðum á fimmtudag en þá létust níu manns.

Björgunarmenn að störfum.vísir/getty
Óttast er að tugir séu fastir í rústum húsa sem hafa hrunið.vísir/getty
Mikil eyðilegging blasir við eftir skjálftann.vísir/getty

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×