Viðskipti innlent

Vodafone í nýjar höfuðstöðvar

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Núverandi höfuðstöðvar Vodafone í Skútuvogi.
Núverandi höfuðstöðvar Vodafone í Skútuvogi. vísir/daníel
Vodafone hefur náð samningum við Eik fasteignafélag hf. um framtíðarhöfuðstöðvar Vodafone. Um er að ræða Suðurlandsbraut 8 í Reykjavík, hið svokallaða Fálkahús. Allsherjar breytingar standa yfir sem stendur á húsnæðinu sem verður sérhannað fyrir starfsemi Vodafone.

Í tilkynningu frá Vodafone kemur fram að eigusamningur um núverandi höfuðstöðvar fyrirtækisins að Skútuvogi 2 í Reykjavík er uppsegjanlegur með 12 mánaða fyrirvara.  Vodafone er í samskiptum við eiganda húsnæðisins að Skútuvogi 2, Reginn hf., með það fyrir augum að ná samningum um leigulok og fullnaðaruppgjör milli félaganna.

Vodafone gerir ráð fyrir að ekki komi til greiðslu kostnaðar af sinni hálfu til Regins hf. vegna leigulokanna, sökum þess að Vodafone telur sig eiga kröfur á hendur Reginn hf. vegna galla og skorts á viðhaldi á núverandi húsnæði að Skútuvogi 2.

Í janúar greindi Vísir frá því að myglusveppur hafi gert starfsfólki í þjónustuveri Vodafone við Skútuvog lífið leitt síðari hluta árs 2015. Þurfti meðal annars að flytja heilt símaver í annað húsnæði skömmu fyrir jól og er þjónustuverið nú tímabundið rekið á tveimur stöðum. Einhverjir starfsmenn fundu fyrir einkennum vegna vandans.

Gunnhildur Ásta Guðmundsdóttir, upplýsingafulltrúi Vodafone, sagði að grunur hafi kviknað um eitthvað óeðlilegt í húsnæðinu seinni hluta liðins árs og strax hafi verið ráðist í að rannsaka málið í samstarfi við sérfræðinga og leigusalann. Í kjölfarið hafi verið farið í viðgerðir. Gunnhildur segir um að ræða afmarkað svæði á jarðhæð hússins í Skútuvogi.

Ekki kemur fram í tilkynningu Vodafone hvort að kröfur fyrirtækisins á hendur Reginn hf. séu tengdar því að myglusveppur hafi komið upp í húsnæðinu en tekið er fram að óvissa sé um hvernig viðræðum fyrirtækjanna um lok leigusamningsins mun lykta. Hugsanlegt sé að ágreiningurinn verði leystur fyrir dómstólum.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×