Innlent

Enn engin lausn í kjaradeilu flugumferðarstjóra

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Sigurjón segir að koma þurfi í veg fyrir aukinn landflótta úr stéttinni.
Sigurjón segir að koma þurfi í veg fyrir aukinn landflótta úr stéttinni. vísir/ernir
Bundnar eru vonir við að eitthvað fari að þokast í kjaradeilu flugumferðarstjóra við Isavia og Samtök atvinnulífsins á fundi þeirra hjá ríkissáttasemjara eftir helgi, að sögn Sigurjóns Jónassonar, formanns Félags íslenskra flugumferðarstjóra. Ótímabundið yfirvinnubann flugumferðarstjóra tók gildi 6. apríl síðastliðinn.

„Við lögðum til hvernig við vildum sjá framhaldið í viðræðunum og viðsemjendur okkar þurfa smá tíma til að skoða það. Við eigum von á einhverju svari frá þeim á næsta fundi, sem er á þriðjudaginn,“ segir Sigurjón.

Sigurjón vill ekki gefa upp hverjar kröfur flugumferðarstjóra séu, að svo stöddu. „Ég ætla ekki að ræða nákvæmlega hvað menn eru að spá svona í krónum og aurum. Það er í rauninni ekki einn hlutur sem þetta hefur strandað á, þetta gengur bara hægt. En menn eru svona að skoða ýmsar leiðir.“

Þá segir hann mikilvægt að fundin sé lausn sem fyrst því flugumferðarstjórar séu farnir að leita annað. Mikilvægt sé að koma í veg fyrir landflótta úr stéttinni.  „Það er skortur á flugumferðarstjórum. Það hafa margir farið úr landi til að vinna í betur launuðum störfum, bæði hérlendis og erlendis, og þetta er ákveðið vandamál sem þarf að leysa,“ segir Sigurjón.

Aðspurður segir hann yfirvinnubannið hafa haft nokkur áhrif á innanlands- og millilandaflug. „Það hefur haft áhrif á millilandaflug, aðallega það flug sem flýgur í gegnum íslenska flugstjórnarsvæðið og yfir Íslandi. Því hefur verið beint sunnar en menn hefðu viljað. Það hefur haft ákveðin óþægindi og kostnað fyrir flugfélögin, en ég held að farþegar hafi fundið lítið fyrir því.“

Þá hafa áhrifin verið nokkur á Reykjavíkurflugvelli, þar sem aðeins einn flugumferðarstjóri er á vakt eftir að dagvinnu lýkur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×