NFL-deildin er búin að gefa út leikjaplanið fyrir næsta vetur og liðin sem mættust í síðasta Super Bowl mætast í upphafsleik vetrarins.
Þá taka meistarar Denver Broncos á móti Carolina Panthers á Sports Authority Field. Er liðin mættust í Super Bowl vann Denver með fjórtán stiga mun, 24-10.
Þetta er í fyrsta sinn síðan 1970 sem liðin úr Super Bowl mætast í opnunarleik næsta tímabils. Leikurinn fer fram fimmtudaginn 8. september.
Liðin sem voru nálægt því að fara alla leið á síðasta tímabili, New England Patriots og Arizona Cardinals, mætast einnig í fyrstu umferð.
Þriðja árið í röð fara fram þrír leikir í London á leiktíðinni. Jacksonville og Indianapolis mætast á Wembley þann 2. október og svo spila Cincinnati og Washington á Wembley 30. október.
Þriðji leikurinn fer fram í Twickenham og verður spilaður 23. október. Það er leikur Los Angeles Rams og NY Giants.
Hér má sjá dagskrána fyrir komandi vetur.

