Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur opnað bókhald sitt og birt yfirlit yfir allar skattskyldar tekjur þau ár sem hann hefur gegnt ráðherraembætti. Þá hefur hann birt yfirlýsingu frá endurskoðenda sínum um að gerð hafi verið grein fyrir félaginu Falson & co á skattframtali Bjarna á sínum tíma.
„Mér finnst bæði eðlilegt og skiljanlegt að gerðar séu miklar kröfur til forystumanna í stjórnmálum,“ segir Bjarni á Facebook þar sem hann birtir upplýsingarnar. Áður hafa Árni Páll Árnason og Katrín Jakobsdóttir, formenn Samfylkingarinnar og Vinstri Grænna, birt upplýsingar úr sínum skattframtölum.
Bjarni tók við embætti fjármála- og efnahagsráðherra árið 2013. Í yfirlýsingu hans sést að hann var með 14,9 milljónir í heildartekjur fyrir árið 2013, 15,7 milljónir árið 2014 og 17,7 milljónir á síðasta ári.
Staðfesta að Falson & Co var skráð á skattskýrslu Bjarna
Meðfylgjandi er einnig yfirlýsing frá Árna Snæbjörnssyni, endurskoðenda hjá Ernst & Young, þar sem fram kemur að Falson & Co, félag sem Bjarni átti hlut í vegna fasteignakaupa í Dubai. Félagið var skráð á Seychelles-eyjum, þekktu skattaskjóli. Var nafn félagsins og Bjarna í Panama-skjölunum.
„Við staðfestum að í skattframtali 2007 vegna tekjuársins 2006 er gerð grein fyrir fjárfestingu í Falson & Co,“ segir í yfirlýsingunni. Fjárfestingin nam 33,3 milljónum króna.
Jafnframt kemur fram að í skattframtali Bjarna árið 2010 vegna tekjuársins 2003 hafi verið gerð grein fyrir 26,1 milljón króna greiðslu frá Falson & Co. Félagið hafi síðan verið fært út árið eftir þegar það var niðurlagt með 7,1 milljón króna tapi.
Sjá má upplýsingar frá Bjarna hér að neðan.
Bjarni birtir upplýsingar úr skattframtali sínu
Tengdar fréttir
Bjarni átti í félagi sem skráð var á Seychelles-eyjum
Hafði áður svarað því að hann ætti engar eignir í skattaskjólum. Hann segist hafa talið að félagið væri skráð í Lúxemborg.
Árni Páll birtir upplýsingar úr skattframtali sínu
Fer að frumkvæði Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra.
Katrín Jakobsdóttir birtir upplýsingar úr skattframtölum
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, hefur fylgt fordæmi Eyglóar Harðardóttur, félags-og húsnæðismálaráðherra, og Árna Páls Árnasonar, formanns Samfylkingarinnar, og birt upplýsingar úr skattframtali sínu opinberlega.