Viðskipti innlent

Söguleg fréttavika á vefmiðlum

Tinni Sveinsson skrifar
Nokkrar af mest lesnu fréttunum á Vísi síðustu viku.
Nokkrar af mest lesnu fréttunum á Vísi síðustu viku.
Síðasta vika fer í sögubækurnar hjá vefmiðlum landsins sem sú fjölsóttasta hingað til. Margir íslensku miðlanna settu ný aðsóknarmet, bæði þegar litið er til lestrar Íslendinga og utan landsteina.

Fæstir áttuðu sig á hvílík rússíbanareið fór í gang þegar fréttir um Panama-skjölin voru settar í loftið á sunnudagskvöld. Atburðarásin sem þá fór í gang var á yfirsnúningi þar til ný ríkisstjórn varðist vantrauststillögu á Alþingi á föstudag og miðlar landsins fylgdust náið með.

Flestir lásu Vísi

Vísir átti sína bestu viku frá upphafi þegar litið er á lestur Íslendinga. Alls skráðust tæplega 529 þúsund innlendir notendur yfir vikuna, fleiri en á öðrum vefjum. Flestir lásu einnig Vísi á meðan mesti hasarinn reið yfir, frá mánudegi til föstudags, en þá sóttu ríflega 215 þúsund íslenskir gestir vefinn á dag.

Mjótt var á mununum milli tveggja stærstu vefja landsins, Vísis og Mbl.is. Báðir voru með svipaðan innlendan notendafjölda yfir vikuna, en þar hafði Vísir betur. Þegar litið er á meðaltal notenda á dag yfir alla vikuna hafði Mbl.is betur en báðir vefir voru með rétt rúmlega 194 þúsund innlenda gesti á dag.

Stærsti dagur í sögu Vísis mældist á þriðjudag en þá heimsóttu 242 þúsund innlendir gestir vefinn og 56 þúsund erlendir.

Beinar útsendingar í háskerpu á Vísi

Aldrei hafa fleiri horft á beinar útsendingar á Vísi en fréttastofa 365 sendi út fjölda fréttatíma í vikunni. Á mánudeginum var gæðum á þeim skipt yfir í háskerpu en þann daginn var alls horft um 55 þúsund sinnum á beinar útsendingar.

Á þriðjudaginn var horft um 40 þúsund sinnum á beinar útsendingar. Áhorfendur sýndu atburðarásinni mjög mikinn áhuga en að meðaltali var horft á beinar útsendingar í 23 mínútur í hvert skipti.

Mikill áhugi að utan

Nokkrir vefir fengu mikinn lestur utan landsteina og fóru Iceland Monitor hjá Mbl.is og Reykjavík Grapevine þar fremstir í flokki. Iceland Monitor var með uppsafnaða um 550 þúsund erlenda lesendur yfir vikuna og Grapevine með um 470 þúsund.

Fleiri vefir slógu síðan sín eigin met í vikunni og má þar nefna Stundina og Kjarnann. Hægt er að fletta nánar gögnum um aðsókn að helstu miðlum landsins á Topplistasíðu Gallup. Fleiri miðla má síðan finna í vefmælingu Modernus.



Uppfært: Í fyrri útgáfu stóð að Reykjavík Grapevine hefði verið með um 490 þúsund erlenda gesti. Hið rétta er að þeir voru um 470 þúsund.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×