Viðskipti innlent

Kjöraðstæður fyrir afnám hafta

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Frá fundi AGS á Kjarvalsstöðum í dag.
Frá fundi AGS á Kjarvalsstöðum í dag. vísir/pjetur
Kjöraðstæður hafa skapast fyrir ný skref í afnámi fjármagnshafta, segir í yfirlýsingu sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem hélt blaðamannafund á Kjarvalsstöðum klukkan þrjú. Í yfirlýsingunni segir að átak til að leysa út aflandskrónueignir sé eðlilegt skref áður en stjórnvöld snúi sér að losun hafta á almenning. „Hækkun þaks á fjárfestingar lífeyrissjóða erlendis væri annað skynsamlegt skref. Aðrar aðgerðir þurfa að vera varfærnar, vel skipulagðar og byggja á markmiðum um eflt fjármálaeftirlit og notkun þjóðhagsvarúðartækja,“ segir í yfirlýsingunni.

Þar segir líka að nýlegar breytingar á ríkisstjórn Íslands eigi sér stað þegar ótvíræður árangur hefur náðst í efnahagslífinu. „Viðlíka hagvöxtur hefur ekki mælst síðan fyrir bankakreppu en hvílir nú á mun styrkari stoðum. Til grundvallar liggur fjölgun ferðamanna sem styður við hagvöxt og skapar gjaldeyristekjur. Afnám hafta af slitabúum gömlu bankanna var nýlega framkvæmt af leikni, þar sem tókst að verja gjaldeyrisvarasjóðinn, lágmarkaða lögfræðilega áhættu og skapa um leið hvalreka fyrir ríkissjóð,“ segir í yfirlýsingunni.

Þá segir jafnframt að greiðslurnar í ríkissjóð, ásamt nýtilkominni heildstæðri löggjöf um fjármál hins opinbera, ættu að leiða til verulegrar lækkunar á skuldum ríkisins. 

Hér má sjá hlekk á tilkynningu AGS. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×