Lífið

Ætlar að finna gamlan séns

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Sigríður hlakkar til að blanda geði við frændur okkar Færeyinga.
Sigríður hlakkar til að blanda geði við frændur okkar Færeyinga. Vísir/GVA
„Það er svo mikill hávaði hér að ég heyri varla í þér,“ segir Sigríður Þorvaldsdóttir leikkona, stödd úti á Keflavíkurflugvelli að flýja land áður en sjötíu og fimm ára afmælið brestur á. „Ég er á leið til Færeyja, er bara í biðröð að flugvélinni,“ segir hún hlæjandi og er til í að spjalla við mig þar til röðin kemur að henni að sýna farseðil og skilríki.



Af hverju Færeyjar? „Ég held það séu 50 ár frá því ég var þar síðast svo það er orðið tímabært. Þá hitti ég mömmu og pabba þar. Pabbi var að spila þar með hljómsveit á fiðluna sína. Við stoppuðum í heila viku og það var spilað og sungið og dansað allan tímann. Alveg meiriháttar skemmtilegt.“

Hún segir Færeyinga hafa getað talað íslensku fyrir 50 árum, eða að minnsta kosti gert sitt besta til þess.

„Þeir spurðu hvort ég væri frá Svíþjóð? Nei, svaraði ég. „Gott, ertu frá Noregi?“ spurðu þeir og fengu aftur nei. „Gott, heyrðu þú ert íslensk,“ hrópuðu þeir þá glaðlega og eftir það var ég alls staðar velkomin ásamt foreldrum mínum. Ég man eftir ungum manni sem gaf mér armbönd og reyndi að kyssa mig. Ég varð bara pirruð en nú ætla ég að leita að honum – djók!“

Eru stelpurnar með þér? „Nei, nei, ég er bara ein. En þær vita af þessu flippi. Dísella, dóttir mín, var að syngja í Færeyjum og bjó á hóteli þar sem hún heyrði kind jarma utan við gluggann þegar hún vaknaði. Þangað stefni ég núna, einmitt í þannig umhverfi vil ég gista.“



Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 12. apríl.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×