Innlent

Ekki útilokað að Vinstri græn séu byrjuð að taka fylgi frá Pírötum

Höskuldur Kári Schram skrifar
Prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Akureyri segir kannanir benda til þess að stjórnarflokkarnir tveir séu byrjaðir að missa sína dyggustu stuðningsmenn. Þá sé ekki útilokað að Vinstri græn séu byrjuð að taka fylgi frá Pírötum.

Kannanir sem gerðar hafa verið síðustu viku benda til þess að Vinstri græn hafi aukið fylgi sitt verulega. Á sama tíma dregur úr stuðningi við stjórnarflokkana, og þá sérstaklega Framsóknarflokkinn, sem í sumum könnunum er að mælast undir tíu prósentum.

Grétar Þór Eyþórsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Akureyri.
Grétar Þór Eyþórsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Akureyri, sagði í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun að margt bendi til þess að stjórnarflokkarnir séu byrjaðir að missa sínu dyggustu stuðningsmenn.

„Þá er að skafast aðeins af stjórnarflokkunum. Þeir hafa ekki flogið hátt í könnunum síðasta árið og þeir eru heldur að gefa eftir. Þetta er þó ekki mikið. Þeir hafa náttúrlega verið komnir niður í harðkjarnafylgið og það er eitthvað að skrapast af því sýnist mér,“ sagði Grétar.

Lítil hreyfing hefur verið á fylgi Samfylkingarinnar í könnunum en Grétar telur það megi að sumu leyti skýra út frá umræðu um tengsl fyrrverandi gjaldkera flokksins, Vilhjálms Þorsteinssonar, við félög í Lúxemborg.

„Vinstri grænir eru að taka flug í mælingu eftir mælingu. Það hlýtur að vera vísbending um eitthvað þannig að þeir eru sennilega að taka fylgi, sem við getum kallað hvað sem er, óánægjufylgi eða hvað það er, eitthvað fylgi sem fer á hreyfingu. Eitthvað virðist fara af Pírötum og það gæti verið að það sé að fara yfir á VG. En ég hef ekki séð neinar greiningar á því þannig að ég get ekki fullyrt um það,“ sagði Grétar.

Hann sagði það ástand sem skapaðist í síðustu viku hafa reynst einskonar bjarghringur fyrir Bjarta framtíð sem virðist vera komin aftur upp í fimm prósenta fylgi sem er þröskuldurinn sem þarf að komast  yfir til að ná kjörnum þingmönnum á þing. 


Tengdar fréttir

Píratar mælast með 43 prósent

Píratar bæta mestu við sig milli mánaða samkvæmt nýrri könnun og stjórnarflokkarnir missa ellefu prósent.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×