Viðskipti innlent

Grindavíkurbær skilaði 216 milljón króna afgangi

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Grindavík.
Grindavík. Vísir/Valli
Grindavíkurbær skilaði 216 milljóna króna afgangi árið 2015. Ársuppgjör Grindavíkurbæjar fyrir árið 2015 var kynnt nú í vikunni og er afkoma bæjarins jákvæð. Rekstrarniðurstaða A og B hluta skilaði afgangi upp á 216,3 milljónir en áætlun gerði ráð fyrir 57,5 milljónum í afgang.

Eiginfjárhlutfall er nú 81,7 prósent en heildareignir í samanteknum reikningsskilum A og B hluta eru 8.410 milljónir króna. Skuldahlutfall A- og B-hluta nemur nú 57,4 prósent af reglulegum tekjum, sem er nokkuð undir landsmeðaltali sem er 84 prósent.

Rekstur í samanteknum reikningsskilum A og B hluta skilaði 501 milljón króna í veltufé frá rekstri sem er 18,7 prósent af heildartekjum en áætlun gerði ráð fyrir veltufé frá rekstri að fjárhæð 301,7 milljónum króna. Á árinu voru engin ný lán tekin en afborganir langtímalána voru 29,3 milljónir króna. Staða bæjarsjóðs er því mjög sterk en handbært fé lækkaði aðeins um 1,6 milljónir á árinu og var í árslok 1.295,8 milljónir króna.

„Grindavíkurbær er fjárhagslega mjög sterkt sveitarfélag, og hefur verið örum vexti undanfarin ár. Ársreikningurinn ber þess merki. Tekjur hafa aukist um 50 prósent síðan 2010, rekstarafgangur batnað um rúm 300 prósent, starfsmönnum fjölgað um 5 prósent á meðan íbúum hefur fjölgað um 13 prósent. Reksturinn hefur því verið að styrkjast og framlegð að aukast,“ segir Róbert Ragnarsson, bæjarstjóri Í Grindavík.

„Hér er útsvar með því lægsta á landinu, og fasteignagjöld lág. Þrátt fyrir það gengur reksturinn mjög vel og raunar mun betur en við áætluðum. Í ljósi þess að sveitarfélagið skuldar mjög lítið og afborganir lána eru lágar eru tækifæri til fjárfestinga mikil. Við höfum fjárfest fyrir rúman milljarð undanfarin ár og gerum ráð fyrir um 1.400 milljóna króna uppbyggingu í bænum fram til ársins 2019. Þessi árangur er tilkomin vegna öflugs atvinnulífs, og samstilltrar vinnu kjörinna fulltrúa og starfsmanna sveitarfélagsins undanfarin ár,“ segir Róbert bæjarstjóri.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×