Viðskipti innlent

Hampiðjan býður hlut sinn í HB Granda til sölu

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Hampiðjan á tæplega níu prósentu hlut í HB Granda.
Hampiðjan á tæplega níu prósentu hlut í HB Granda. vísir/gva
Hampiðjan hefur ákveðið að bjóða til sölu hlutafé sitt í HB Granda hf í tengslum við kaup á hlutfé í P/F Von í Færeyjum. Sala hlutafjárins mun fara fram með útboði. Hampiðjan hf. hefur nú þegar tryggt fulla fjármögnun kaupanna á P/F Von, en hefur engu að síður áhuga á að kanna möguleikann á að fjármagna kaupin að hluta til eða í heild með andvirði sölu þess hlutafjár í HB Granda hf. sem nú er í eigu félagsins. Til sölu er 8,79% af skráðu hlutafé HB Granda hf og mun fjárfestingabankasvið Arion banka hafa umsjón með framkvæmd útboðsins.                                  

Tilboðsfrestur rennur út klukkan 16.00 þann 3. maí næstkomandi og verður tilkynnt um niðurstöðu útboðsins í fréttakerfi Nasdaq kauphallar eigi síðar en klukkan 9.30 þann 4. maí 2016.

Í tilkynningu sem birtist í fréttakerfi kauphallarinnar er athygli fjárfesta vakin á því að stjórnarformaður Hampiðjunnar hf., Vilhjálmur Vilhjálmsson, er jafnframt forstjóri HB Granda hf. og að einn stjórnarmaður Hampiðjunnar hf., Kristján Loftsson, er einnig stjórnarformaður HB Granda hf. 

Jafnframt er Kristján stjórnarmaður og framkvæmdastjóri Vogunar hf. sem á 37,61% hlut í Hampiðjunni hf. og 33,51% hlut í HB Granda hf. og formaður stjórnar Fiskveiðafélagsins Venus hf., sem á 14,59% eignarhlut í Hampiðjunni hf. og 0,65% eignarhlut í HB Granda hf. Vogun hf. er að nær öllu leyti í eigu Hvals hf., þar sem Fiskveiðafélagið Venus hf. er stærsti hluthafinn með 39,5% eignarhlut.  Loks eru þeir Vilhjálmur og Kristján báðir hluthafar í HB Granda hf. og Hampiðjunni hf. í eigin nafni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×