Viðskipti innlent

Tapi 365 snúið við í hagnað

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri 365.
Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri 365. Vísir
Hagnaður varð af rekstri 365 miðla á árinu 2015 að fjárhæð 22 milljónir króna miðað við 1.360 milljóna króna tap árið áður.

Tekjur voru 11.160 milljónir króna og rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði nam 955 milljónum króna. Heildareignir samstæðunnar námu í árslok 12.880 milljónum króna. og skuldir 10.033 milljónum króna. Eigið fé nam 2.847 milljónum króna.

„Starfsfólk 365 hefur náð frábærum árangri í störfum sínum á árinu 2015,“ segir Sævar Freyr Þráinsson forstjóri 365 miðla. „Félagið sýndi afar jákvæðan rekstrarhagnað og ber síðasta rekstrarár með sér mikinn viðsnúning í rekstri miðað við fyrra ár. Við höfum fest rætur okkar á íslenskum fjarskiptamarkaði og verið þar leiðandi með verðbreytingar til hagsbóta fyrir viðskiptavini okkar.“

Sala jókst um tæp 11 prósent og nam 11.160 milljónum króna, samanborið við 10.079 milljónir króna á árinu 2014. Töluverð aukning varð í fjarskiptatekjum á árinu 2015 eftir sameiningu við Tal á miðju ári 2014. Sala jókst um 4,8 prósent af afþreyingarhluta starfsemi 365.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu þann 29. apríl.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×