Viðskipti innlent

Wow air hagnast um 400 milljónir króna á fyrsta ársfjórðungi

ingvar haraldsson skrifar
Skúli Mogensen er stofnandi og forstjóri WOW air.
Skúli Mogensen er stofnandi og forstjóri WOW air. vísir/vilhelm
Flugfélagið Wow air hagnaðist um 400 milljónir króna á fyrstu þremur mánuðum ársins samkvæmt tilkynningu frá fyrirtækinu.

Heildartekjur á tímabilinu námu 4 milljörðum króna sem er 141% aukning miðað sama tímabil í  fyrra, þegar tekjurnar námu 1,7 milljarði króna.

Rekstarhagnaður án afskrifta á fyrsta ársfjórðungi (EBITDA) voru 680 milljónir króna og jókst um milljarð milli ára. Hagnaður félagsins eftir skatta á fyrsta ársfjórðungi var 400 milljónir króna samanborið við 280 milljón króna tap á fyrsta ársfjórðungi árið 2015.

Á fyrsta ársfjórðungi flaug WOW air með 193 þúsund farþega sem er aukning um 119% á milli ára. Sætanýtingin á fyrsta ársfjórðungi er 88% og fjölgaði framboðnum sætiskílómetrum um 164% milli ára sem er mesta aukning frá stofnun félagsins.

„Við erum mjög ánægð með árangur okkar á fyrsta ársfjórðungi enda gríðarleg aukning í bæði sætaframboði og afkomu. Við höfum vaxið hratt og það er ánægjulegt að sjá hversu vel okkur hefur tekist að ná frábærri nýtingu yfir vetrarmánuðina þrátt fyrir meira en tvöföldun á framboði. Persónulega er ég fyrst og fremst þakklátur fyrir hversu góðar móttökur við höfum fengið á Norður-Ameríkuflugi okkar sem og hversu vel WOW teymið hefur haldið utan um þennan mikla vöxt með brosi á vör“ segir Skúli Mogensen forstjóri og stofnandi WOW air, í tilkynningu frá fyrirtækinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×