Viðskipti innlent

Gylfi Magnússon: Íslenskt efnahagslíf helsjúkt

Birgir Örn Steinarsson skrifar
Gylfi Magnússon segir aflandsfélög skaða efnahagslíf landsins á margvíslegan hátt.
Gylfi Magnússon segir aflandsfélög skaða efnahagslíf landsins á margvíslegan hátt. Vísir/Valli
Gylfi Magnússon, fyrrum viðskipta- og efnahagsráðherra og núverandi dósent hjá Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, sagði í viðtali við Morgunvaktina á Rás1 í morgun að íslenskt efnahagslíf væri helsjúkt vegna tengsla íslenskra viðskiptamanna við aflandsfélög. Hann segir það vitað að slík félög séu notuð til þess að komast hjá skattgreiðslum.

„Stundum ólöglega en stundum með einhverjum flækjum sem standast þó ýtrustu próf lögfræðinnar þó svo að þau séu ekki siðleg,“ sagði Gylfi í viðtalinu. „Það þýðir þá auðvitað að þeir sem eru með breiðustu bökin eru ekki að borga sinn skerf við að halda samfélaginu uppi. Þeir sem enda á því að borga eru þá venjulegt launafólk sem getur ekki komið peningunum sínum undan.“

Gylfi bendir á að þeir sem nýti sér slík skattaskjól skekki samkeppni þar sem fyrirtæki sem stundi heiðarlega viðskiptahætti geti ekki boðið viðskiptavinum sínum upp á sömu kjör eða verð.

„Þeir sem notfæra sér svona brögð geta haft forskot á aðra sem þá heltast út úr lestinni. Þannig endum við með helsjúkt samfélag sem ég held að sé því miður ekkert fjarri lagi sem lýsing á efnahagslífinu hér.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×