Viðskipti innlent

Á­kvörðun um al­mennings­sam­göngur Reykja­nes­bæjar úrskurðuð ógild

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Úr Reykjanesbæ.
Úr Reykjanesbæ. vísir/gva
Kærunefnd útboðsmála hefur fellt úr gildi ákvörðun Reykjanesbæjar þar tilboði Hópferða Sævars Baldurssonar ehf. í akstur almenningssamgangna bæjarins var tekið.

Í júlí í fyrra óskaði bærinn eftir tilboðum í akstur á ýmsum leiðum í almenningsvagnakerfi bæjarins fyrir árin 2016-2022. Tveir aðilar skiluðu tilboðum í verkið, Hópferðir Sævars Baldurssonar ehf. og SBK ehf.

Tilboð voru opnuð 12. nóvember og reyndist tilboð Hópferða Sævars Baldurssonar umtalsvert lægra. Einni og hálfri viku síðar var aðilum gert kleift að leggja fram „endanleg verðtilboð“ þar sem að framlögð tilboðsgögn tryggðu ekki að hægt væri að fylgja meginreglum útboðsmála.

Þann 30. nóvember voru tilboð opnuð á nýjan leik. SBK breytti sínu tilboði ekki en tilboð Hópferða Sævars Baldurssonar hafði hækkað um tæpar tíu milljónir. Kærandi málsins, SBK, vildi meina að síðara tilboðið hafi eingöngu verið til þess að gera hinum aðila málsins kleift að hækka sitt tilboð.

Í niðurstöðu nefndarinnar kemur fram að það sé meginregla opinberra innkaupa að bjóðendum sé óheimilt að breyta tilboðum eftir að þau hafi verið opnuð.

„Af gögnum málsins er ljóst að ástæðan fyrir því að bjóðendum var boðið að gera ný tilboð voru mistök við gerð tilboðs Hópferða Sævars Baldurssonar ehf. Jafnvel þótt fallist yrði á að varnaraðila hafi verið heimilt að leiðrétta tilboð félagsins gat það ekki réttlætt að bjóðendum væri gefinn kostur á að skila inn nýjum tilboðum frá grunni,“ segir í niðurstöðunni. Ákvörðunin var því felld úr gildi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×