Viðskipti innlent

Vodafone-lekinn: Þrír fá 2,7 milljónir í skaðabætur

Bjarki Ármannsson skrifar
Alls voru kveðnir upp dómar í fimm skaðabótamálum á hendur Fjarskipti hf. í héraðsdómi í dag.
Alls voru kveðnir upp dómar í fimm skaðabótamálum á hendur Fjarskipti hf. í héraðsdómi í dag. Vísir/Daníel
Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í dag Fjarskipti hf., móðurfélag fjarskiptafyrirtækisins Vodafone, til að greiða samtals 2,7 milljónir í skaðabætur til þriggja einstaklinga vegna Vodafone-lekans svokallaða í nóvember 2013.

Alls voru kveðnir upp dómar í fimm skaðabótamálum á hendur Fjarskipti hf. í héraðsdómi í dag og var félagið sýknað í tveimur þeirra. Greint er frá úrskurðunum í tilkynningu frá Fjarskiptum til fjölmiðla.

Vodafone-lekinn gleymist seint þeim sem hann snerti. Tyrkneskur tölvuþrjótur lak þá um áttatíu þúsund smáskilaboðum frá tugþúsundum Íslendinga. Tölvuárásin hafði víðtæk áhrif, gengi hlutabréfa Vodafone hríðféll í kjölfarið og fjölmargir viðskiptavinir sögðu skilið við fyrirtækið.

Sex einstaklingar stefndu Fjarskipti hf. í fyrra og fóru fram á samtals 113 milljónir króna í skaðabætur. Í málunum fimm sem héraðsdómur úrskurðaði í í dag var samtals farið fram á 103,8 milljónir. Aðalmeðferð í sjötta málinu fer fram þann 13. maí næstkomandi.

„Innan Fjarskipta hf. hefur mikil vinna átt sér stað undanfarin ár á sviði öryggismála og hefur félagið kappkostað að læra af reynslunni,“ segir í tilkynningunni til fjölmiðla.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×