Erlent

Erfið byrjun friðarviðræðna

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Ekkert samkomulag náðist um dagskrá friðarviðræðna stríðandi fylkinga í Jemen á fundi í gær. Samkvæmt Sameinuðu þjóðunum hafa alls um 6.500 fallið í borgarastyrjöldinni í landinu, þar af um 3.000 óbreyttir borgarar.

Borgarastyrjöldin hefur staðið yfir frá því í mars árið 2015 en Hútar, hliðhollir fyrrverandi forseta, Ali Abdullah Saleh, leitast við að steypa ríkisstjórn Abd Rabbuh Mansur Hadi af stóli. Þá hafa hryðjuverkasamtökin Al-Kaída og Íslamska ríkið einnig ráðist á fylkingarnar tvær.

Friðarviðræðurnar fara nú fram í Kúveit og eru þær fyrstu beinu viðræður Húta og stuðningsmanna Hadi. Reuters greinir frá því að samkomulag um dagskrá hafi ekki náðst vegna ágreinings um forgangsatriði. Hútar vilja að ný ríkisstjórn sé mynduð áður en þeir leggi niður vopn sín en menn Hadi vilja að Hútar leggi niður vopn sín áður en rætt verði um nýja ríkisstjórn.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 23. apríl


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×