Viðskipti innlent

Vill auka útflutningsverðmæti undir vörumerkinu Ísland

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra segir að auka þurfi útflutningsverðmæti vöru og þjónustu til ársins 2030. Hún hefur boðað sérstakan samráðsvettvang stjórnvalda og atvinnulífs og vill að menn einbeiti sér að vörumerkinu Ísland í markaðssetningu erlendis.

Utanríkisráðherra boðaði samstarfsvettvang stjórnvalda og atvinnulífs og að stefnumótun í útflutningi yrði skerpt til langs tíma, í ræðu á aðalfundi Íslandsstofu í gær en ráðherrann skipar í næsta mánuði nýja stjórn Íslandsstofu.

Þú sagðir á aðalfundinum að auka þyrfti útflutningsverðmæti vöru og þjónustu til 2030. Hvað ætlið þið að gera til þess að ná þessu markmiði? „Við ætlum að efla allt markaðsstarf. Það er í raun og veru þrennt sem við erum að hugsa um. Við ætlum að auka alla langtímastefnumótun og auka samstarf hins opinbera og atvinnulífsins. Í öðru lagi viljum við að setja á fót sérstakt ráðgjafaráð sem verður til þess að vinna í þessari langtímastefnumótun og talar sérstaklega til atvinnulífsins og fær alla að borðinu. Í þriðja lagi erum við að vinna að því að finna fastari mælikvarða á árangur þeirra vinnu sem við erum í,“ segir Lilja Alfreðsdóttir. 

Utanríkisráðherra vill að samstarfsvettvangurinn móti með Íslandsstofu langtímastefnu sem miði að því að auka útflutningsverðmæti á næstu 15 árum.

Sigurður Ingi Jóhannsson.
Sigurður Ingi Jóhannsson þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sagði á bændafundi í Þingborg í Flóa í síðasta mánuði að bændur þyrftu að stórbæta markaðssetningu á lambakjöti erlendis. 

„Það hefur mistekist. Þegar menn selja einungis 20-25 prósent af vörunni undir merkinu Ísland. Svo segjum við að þetta sé frábær gæðavara og dúmpum því inn á heimsmarkað í samkeppni við nýsjálenskt kjöt og það er enginn munur þar gerður á. Það er ekki skrýtið að við fáum ekki hærra verð,“ sagði Sigurður Ingi. Hann gagnrýndi líka að bændur væru að vinna hver í sínu horni fremur en að stilla saman strengi en þriðjungur af kindakjötsframleiðslunni fer á erlendan markað.

Lilja Alfreðsdóttir segir að samráðsvettvangurinn verði notaður til að stilla saman strengi útflutningsfyrirtækja. Hún hefur hitt stjórnendur í atvinnulífinu til að ræða hvernig megi bæta markaðssetningu á íslenskum vörum erlendis. Hún segir að draga megi lærdóm af góðum árangri Icelandair í þeim efnum. 

„Við þurfum að vanda okkur betur við vörumerkið Ísland. Og það er það sem við ætlum að vinna með,“ segir Lilja. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×