Skoðun

Öll 18 mánaða börn á leikskóla

Skúli Helgason skrifar
Það er stefna meirihluta Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata í Reykjavík að auka þjónustu við fjölskyldur yngri barna þannig að bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla verði brúað á komandi árum. Við náðum mikilvægum áfanga á dögunum þegar borgarráð samþykkti tillögu skóla- og frístundasviðs um að bjóða öllum börnum sem fædd eru í janúar og febrúar 2015 innritun á leikskólum borgarinnar frá og með haustinu.

Reglur borgarinnar hafa kveðið á um að öll börn innritist á leikskóla árið sem þau verða tveggja ára en í ágúst næstkomandi getum við í fyrsta sinn boðið öllum börnum sem eru 18 mánaða og eldri leikskólapláss. Þar kemur m.a. til að stóru fæðingarárgangarnir eftir hrun eru að færast upp í grunnskólana og meira jafnvægi að skapast varðandi stærð árganga á leikskólastiginu. Þessu fylgir að nú er hægt að finna laus leikskólapláss í hverfum þar sem áður hafa verið langir biðlistar, s.s. í vesturbænum.

Það mun koma í ljós á næstu vikum hvort öll börn fædd í janúar og febrúar 2015 þiggja þau leikskólapláss sem þeim standa til boða og þá skýrist myndin af því hvort hægt verði að bjóða enn yngri börnum pláss í haust. Vilji okkar stendur til þess en frekari skref í þá veru kalla á viðbótarfjármagn úr borgarsjóði.

Brúum bilið frá fæðingarorlofi

Í samstarfssáttmála meirihlutans segir að áætlun verði unnin um að brúa bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla og teknar upp viðræður við ríkið og Alþingi um að ná því markmiði. Nú liggja fyrir tillögur starfshóps um lengingu fæðingarorlofs úr 9 mánuðum í 12 og er mikilvægt að stjórnmálaflokkarnir styðji þau áform í aðdraganda þingkosninga í haust. Samfylkingin hefur talað fyrir því um árabil og mun beita sér af krafti í þeirri baráttu.

Framundan er vinna á vegum borgarinnar við að móta áætlun um fjölgun leikskólaplássa fyrir börn yngri en 18 mánaða. Það verður eitt mikilvægasta fjárfestingarverkefni næstu ára í Reykjavík.

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu þann 9. maí.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×