Viðskipti innlent

Meirihluti tekna Valitor erlendis í fyrsta sinn

Ingvar Haraldsson skrifar
Viðar Þorkelsson, forstjóri Valitor, segir árið hafa einkennst af miklum fjárfestingum.
Viðar Þorkelsson, forstjóri Valitor, segir árið hafa einkennst af miklum fjárfestingum. vísir/stefán
Kortafyrirtækið Valitor hagnaðist um 49 milljónir króna á síðasta ári. Hagnaðurinn dróst talsvert saman milli ára en hann nam 215 milljónum króna árið 2014.

Viðar Þorkelsson, forstjóri Valitor, segir fyrirtækið hafa farið í miklar fjárfestingar á síðasta ári.

„Það hefur skemmri tími áhrif á hagnaðinn en til lengri tíma ætti það að vera jákvætt,“ segir hann.

Meirihluti tekna Valitor kom til vegna starfsemi erlendis á síðasta ári í fyrsta sinn, en hlutfall erlendra tekna var 18 prósent árið 2012.

Meðal þeirra verkefna sem Valitor vinnur að er félagið Iteron Ltd. á Bretlandi en Valitor bókfærði hálfs milljarðs króna tap vegna starfsemi þess á síðasta ári. Viðar segir fyrirtækið vera að stíga sín fyrstu skref og stefni á markaðssetningu hjá kaupmönnum á Bretlandi. „Við erum að byggja félagið upp frá grunni og það kostar auðvitað sitt,“ segir hann.

Þjónustutekjur Valitor jukust talsvert á milli ára og námu 10,4 millörðum króna, miðað við 8,2 milljarða króna árið 2014. Á móti jukust þjónustugjöld og námu 6,7 milljörðum 2015 miðað við fjóra milljarða árið áður.

Viðar segir fyrirtækið vera búið að bókfæra um 4,5 milljarða króna vegna kaupa Visa International á Visa Europe, en stefnt er að því að ganga frá þeim viðskiptum á þriðja ársfjórðungi þessa árs.

Arion banki á 99 prósent af hlutafé í Valitor. Eigið fé félagsins nemur 7,6 milljörðum króna, skuldir 26,8 milljörðum og eignir 34,4 milljörðum króna. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 5. maí






Fleiri fréttir

Sjá meira


×