Viðskipti innlent

Hvetja til samstarfs einkaaðila og ríkis við fjárfestingar í innviðum

Kristján Már Unnarsson skrifar
Samtök atvinnulífsins hvetja til þess að ríkið taki upp samstarf við einkaaðila um fjármögnun samgöngumannvirkja og telja að verkefni eins og að fækka einbreiðum brúm henti vel. 

Eins og fram kom í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi hafa Samtök atvinnulífsins slegist í hóp þeirra sem telja brýnt að hefja stórfelldar endurbætur á samgöngukerfi landsins og verja það frekari skemmdum. 

„Málið hvarfast kannski um það að það hafa ekki verið til fjármunir til að standa undir þessum málaflokki og þá verða menn að hafa víðsýni og þor til að kanna möguleg úrræði í því,“ segir Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins. 

„Við höfum dæmi í löndunum í kringum okkur þar sem menn hafa nýtt sér samstarf ríkis og einkaaðila á sviði innviðafjárfestinga, sem hafa fengið frábærar og mjög góðar einkunnir. Ísland er mjög aftarlega á merinni þegar kemur að þessu og í ljósi stöðunnar, sem uppi er, þá hljótum við að spyrja okkur þeirrar spurningar hvort við þurfum ekki að einhenda okkur í það verkefni að læra af góðri reynslu Norðmanna og annarra þjóða í þeim efnum.“

Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, segir frá umsögn Samtaka atvinnulífsins um samgönguáætlun.Stöð 2/Friðrik Þór Halldórsson.
Hvalfjarðargöngin eru almennt talin velheppnað dæmi um fjármögnun og rekstur einkaaðila á samgöngumannvirki. Almar vill þó ekki nota hugtakið einkafjármögnun, segir að enska hugtakið sé „public-private partnership“. 

„Okkur finnst það mikilvægt því að þetta er eðlilegt og heilbrigt samstarf einka- og ríkisaðila, til þess bæði að fjármagna og reka samgöngumannvirki. Og auðvitað líka að skipta áhættunni á sanngjarnan hátt fyrir báða.“

Þótt slíkt samstarf sé helst tíðkað við stór verkefni telur Almar að einnig megi nýta það við smærri verkefni.

„Við getum bara tekið sem dæmi einbreiðar brýr, sem menn vilja losna við af þjóðvegi númer 1. Það er hægt að setja það upp sem eitt verkefni. Þá eru kannski fjárhæðir og annað þess háttar orðið þess eðlis að það mætti allavega skoða þessa aðferðafræði,“ segir framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×