Erlent

Minnst 33 látnir í árásum ISIS í Írak

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá vettvangi árásanna.
Frá vettvangi árásanna. Vísir/AFP
Íslamska ríkið hefur lýst yfir ábyrgð á tveimur sjálfsmorðsárásum í suðurhluta Írak í dag. Minnst 33 létu lífið í árásunum, en sjaldgæft er að árásir séu gerðar svo sunnarlega í landinu. Tveir menn sprengdu sig í loft upp í bílum með fimm mínútna millibili í borginni Samawa.

Minnst 50 eru sagðir hafa særst í árásunum.

Fyrri sprengingin varð nærri strætóstoppistöð í miðbæ Samawa. Svo sprakk hinn bíllinn í um 400 metra fjarlægð um fimm mínútum seinna. Samkvæmt tilkynningu frá hryðjuverkasamtökunum segir að seinni árásin hafi beinst gegn sjúkraflutningamönnum, slökkviliðsmönnum og öðrum viðbragðsaðilum sem voru á leið á vettvang fyrri árásarinnar.

AFP fréttaveitan segir ISIS hafa framið fjölda árása í Bagdad, höfuðborg Írak síðustu vikur. Í einni þeirra létust minnst 30 og þar af mörg börn og konur. Samtökin hafa tapað verulegum hluta af yfirráðasvæði sínu í Írak á síðastliðnu ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×