Innlent

Mistök við sölu Ásmundarsalar algjört einsdæmi

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Hús listasafns ASÍ, Ásmundarsalur, var selt á lægra verði en hægt hefði verið að fá fyrir það en hærra tilboð barst aldrei til seljanda hússins vegna mistaka fasteignasala. Formaður Félags Fasteignasala segir málið mjög óvenjulegt og veit ekki til þess að slík mistök hafi áður orðið.

Viku eftir að tilkynnt var um sölu hússins var það selt fyrir 168 milljónir króna. Morgunblaðið greindi svo frá því í dag hærra tilboð hafi borist en að vegna mistaka fasteignasölunnar Valhallar, sem sá um söluna, hafi tilboðið ekki borist seljandanum.

Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ segist líta málið alvarlegum augum og að nú sé verið að skoða hvort hægt sé að láta fasteignasöluna greiða mismuninn. Framkvæmdastjóri Valhallar sagðist í samtali við fréttastofu í dag harma þá stöðu sem upp er komin og að verið sé að skoða málið ofan í kjölinn.

Kjartan Hallgeirsson, formaður Félags fasteignasala segir að fasteignasalar séu yfirleitt með skýrt verklag þegar verið sé að að ganga frá kaupum og sölu eigna.

„Það er auðvitað hlutverk fasteignasala að gæta réttar kaupanda og seljanda. Það er okkar lögbundna hlutverk. Það er mjög mikilvægt hjá öllum fasteignasölum að vera með skýrar verklagsreglur og gæðahandbók varðandi það hvernig tekið er á svona hlutum. Þegar mörg tilboð koma í eignir og hvernig unnið er með það til að tryggja að svona lagað gerist ekki,“ segir hann.

Kjartan man ekki eftir að samskonar mál hafi komið upp.

„Ég þekki bara ekki til í seinni tíð að svona mál hafi komið upp, þó að ég kannski þekki ekki til allra mála. Þetta er einstakt mál myndi ég halda og mjög óvenjulegt,“ segir  hann. 

 


Tengdar fréttir

Sorgmæddur formaður vegna sölu á Ásmundarsal

"Við erum ótrúlega sorgmædd yfir þessu. Þetta lyktar af því að hafa verið ákveðið fyrirfram,“ segir Jóna Hlíf Halldórsdóttir, formaður Sambands íslenskra myndlistarmanna (SÍM). ASÍ hefur selt Ásmundarsal þar sem Listasafn ASÍ hefur verið til húsa um árabil.

Keyptu Ásmundarsal á 168 milljónir króna

Fjárfestarnir og hjónin Sigurbjörn Þorkelsson og Aðalheiður Magnúsdóttir borguðu 168 milljónir fyrir Ásmundarsal á Freyjugötu en þar hefur Listasafn ASÍ verið með starfsemi um árabil. Fasteignamat hússins er 78,7 milljónir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×