Lífið

Mætti sveitt og másandi í vinnuna á Patró en mánuði of snemma

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Tanja hafði misskilið dagsetninguna sem hún fékk í Facebook-skilaboðunum. Þar var hún boðuð til vinnu 16. júní en Tanja mætti samviskusamlega á næturvakt í gærkvöldi, 16. maí.
Tanja hafði misskilið dagsetninguna sem hún fékk í Facebook-skilaboðunum. Þar var hún boðuð til vinnu 16. júní en Tanja mætti samviskusamlega á næturvakt í gærkvöldi, 16. maí. Vísir/Pjetur
Tanja Teresa Leifsdóttir stjórnmálafræðinemi mætti öllum að óvörum til vinnu á sjúkrahúsið á Patreksfirði í gærkvöldi. Þangað var hún mætt á sína fyrstu næturvakt í sumar en Tanja hefur starfað á sjúkrahúsinu undanfarin sumur en á veturna er hún í skóla í höfuðborginni.

Tanja var að verða of sein og hljóp því upp brekkuna sem skilur að hús fjölskyldu hennar á Patreksfirði og sjúkrahúsið.

„Ég kem þarna inn sveitt og másandi, og mánuði of snemma,“ segir Tanja hlæjandi í samtali við Vísi. Kunnugleg andlit voru á vaktinni sem Tanja segir að hafi misst sig úr hlátri. Fátt komi hins vegar fjölskyldu og vinum Tönju á óvart þegar hún sé annars vegar.

„Þetta er eiginlega bara klassískt ég, gæti ekki verið meira ég,“ segir Tanja. „Þetta er örugglega samt það „glæsilegasta“ sem ég hef gert, hingað til.“

Tanja hafði misskilið dagsetninguna sem hún fékk í Facebook-skilaboðum. Þar var hún boðuð til vinnu 16. júní en Tanja mætti samviskusamlega á næturvakt í gærkvöldi, 16. maí. Hún hafði sofið um daginn og vakið nóttina á undar til að undirbúa sig. Allt til einskis.

„Fjölskyldunni minni finnst þetta mjög fyndið,“ segir Tanja sem er óviss um hvað hún geri. Hana bráðvanti vinnu næstu tvær vikurnar enda Ítalíuferð fyrirhuguð 2. júní. Hún hafi hins vegar treyst á útborgun um næstu mánaðarmót til að geta farið í ferðina.

„Ég veit hreinlega ekki hvað ég geri,“ segir Tanja. Hún sé til í allt, alla vinnu, hvar og hvenær sem er. Ekki væri verra að vinnan væri á Patreksfirði en alls ekkert nauðsynlegt. Hún skoði allt. Mögulega geti hún fengið einhverja vinnu á sjúkrahúsinu en hún eigi eftir að ræða við yfirhjúkrunarfræðinginn.

Tanja tísti um atvikið í gærkvöldi þegar hún var komin heim til sín og hefur tístið vakið mikla lukku hjá netverjum.


 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×