Íslenski boltinn

Guðjón Baldvins um markið eftir níu sekúndur: „Ég var varla byrjaður sjálfur“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Guðjón Baldvinsson var fljótur að skora í kvöld.
Guðjón Baldvinsson var fljótur að skora í kvöld. vísir/stefán
Guðjón Baldvinsson, framherji Stjörnunnar var í góðu formi í kvöld í 6-0 sigri Stjörnunnar á Þrótti í kvöld. Hann skoraði tvö mörk, þar af fyrsta mark leiksins sem kom eftir aðeins níu sekúndur og er það næstfljótasta mark í sögu deildarinnar.

„Ég var nú varla byrjaður sjálfur,“ segir Guðjón um markið. „Það er ekki oft sem maður fær svona ókeypis mörk en þetta kom okkur inn í leikinn.“

Stjarnan situr á toppi deildarinnar eftir úrslit kvöldsins með fullt hús stiga og er augljóslega í góðu formi. Guðjón segir að það hafi ekki komið til greina að ætla að hleypa Þrótturum með stig með sér heim.

„Það er erfitt að mæta nýliðum sem yfirleitt eru vel gíraðir í upphafi móts. Við vissum að við þyrfum að vera sérstaklega sterkir í byrjun og við sýndum það að þeir áttu ekki að koma hingað til að ná í nein stig,“ segir Guðjón.

Framundan eru stórir leikir hjá Stjörnunni. Liðið mætir KR á útivelli í næstu umferð og FH í næstu umferð á eftir. Guðjón segir að markmiðið í þeim leik séu sigrar og það sé alveg ljóst hvað Stjarnan stefni á í sumar.

„Við ætlum að vinna þessa dollu og það er ekkert launungarmál. Til þess þarf maður að vinna leiki og markatalan getur skipt máli. Það eru hörkuleikir framundan en við erum í góðu formi,“ segir Guðjón.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×