Viðskipti innlent

"Ég er ofsaglöð, þetta er frábært!“

Kristján Már Unnarsson skrifar

Iðnaðaruppbygging í Helguvík er í uppnámi eftir að Hæstiréttur felldi í dag úr gildi eignarnámsheimild á fimm jörðum á Reykjanesi vegna lagningar háspennulínu. Deilurnar um hvort leggja eigi nýja háspennulínu til Suðurnesja sem loftlínu hafa staðið yfir árum saman en Landsnet hafði fengið heimild iðnaðarráðherra til að taka jarðirnar eignarnámi í því skyni.



Í dag höfðu landeigendur sigur í Hæstarétti sem með þremur atkvæðum gegn tveimur ógilti eignarnámið á þeirri forsendu að Landsnet hefði við undirbúning ekki kannað nægilega vel þann valkost að leggja fremur jarðstreng. Tveir dómaranna vildu staðfesta þá niðurstöðu Héraðsdóms að heimila eignarnámið.



Ljóst er að dómur Hæstaréttar er áfall fyrir Landsnet og gæti haft víðtækar afleiðingar. Þannig var nýrri háspennulínu meðal annars ætlað að mæta raforkuflutningi vegna nýrra iðnfyrirtækja í Helguvík en þar er eitt kísilver í smíðum og búið að semja um annað. 

Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets.

Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets, vildi ekki veita viðtal um málið nú síðdegis, - sagði að menn þyrftu meiri tíma til að átta sig á hvaða áhrif dómurinn hefði. 



Í yfirlýsingu segir Landsnet að niðurstaða Hæstaréttar muni óhjákvæmilega valda seinkunum á brýnum framkvæmdum við uppbyggingu flutningskerfis raforku til Suðurnesja. Landsnet kveðst vona að þær verði ekki langvarandi og leitast verði við að lágmarka það tjón sem af þeim kunni að hljótast. 



Geirlaug Þorvaldsdóttir, einn landeigenda, sagði hins vegar þegar Stöð 2 færði henni tíðindin skömmu fyrir fréttaútsendingu í kvöld:



„Ég er ofsaglöð. Þetta er frábært!"

Geirlaug Þorvaldsdóttir, einn af eigendum jarðanna Stóru Vatnsleysu og Minni Vatnsleysu.

Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×