Viðskipti innlent

Hannes Smárason: Hafði prókúru Pace Associates Corp

Birgir Örn Steinarsson skrifar
Panamaskjölin sýna að Hannes var tengdur félaginu Pace Associaites Corp.
Panamaskjölin sýna að Hannes var tengdur félaginu Pace Associaites Corp. Vísir/Heiða
Reykjavík Media heldur áfram að fletta ofan af Panamaskjölunum í dag og birti frétt þess efnis að Hannes Þór Smárason, sem oftast hefur verið kenndur við FL-Group, hafi verið með prófkúru í félaginu Pace Associates Corp á þeim tíma sem það fékk þriggja milljarða króna lán frá Fons ehf.

Þar kemur meðal annars fram að þó svo að Hannes Þór hafi ekki verið raunverulegur eigandi félagsins hafi prókúra hans veitt honum sama aðgang að eignum félagsins og eigendur höfðu.

Á svipuðum tíma og Hannes Þór var gerður prókúruhafi fékk Pace Associates Corp 50 milljón evra lán frá Landsbankanum.

Landsbankinn í Lúxemborg keypti félagið af Mossack Fonseca árið 2007 en félagið var gert óvirkt þremur árum síðar. Lánið var á endanum fullu afskrifað árið 2008 þegar talið var að það væri að fullu tapað.

Dagsetningum breytt

Samkvæmt skjölum Landsbankans í Luxemborg var Hannes Þór gefin prókúra að félaginu 30. apríl 2007 eða sama dag og lánssamningur á milli Fons eignarhaldsins ehf og Pace Associates Corp er dagsettur.

Reykjavík Media bendir á í umfjöllun sinni að lánssamningurinn komi fyrst fram í skjölum Mossack Fonseca í júlí 2008 en talað er um að dagsetningum á því hafi verið breytt eftir á af starfsmanni Landsbankans í Lúxemborg aftur til ársins 2007 einmitt á sömu dagsetningu og lánasamningur Fons ehf og Pace Associates Corp var gerður.

Embætti Sérstaks saksóknara ransakaði Pace Association á sínum tíma en málið var látið niður falla. Skiptastjóri Fons eignarhaldsfélags reyndi í þrjú ár að hafa uppi á þeim fjármunum sem skráðir voru á félaginu en án árangurs. Ekki er vitað hvað varð um eignir félagsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×