Innlent

Setja spurningamerki við útskýringar Sigmundar Davíðs varðandi CFC-framtöl

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. vísir/Anton
Skattgreiðslur af eignum Önnu Sigurlaugar Pálsdóttur, eiginkonu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, fyrrverandi forsætisráðherra, nema um það bil 300 milljónum króna síðastliðin tíu ár, en Anna á aflandsfélagið Wintris, sem kunnugt er.

Þetta kemur fram í gögnum sem Sigmundur Davíð hefur sent Morgunblaðinu þar sem segir að KPMG endurskoðunarfyrirtækið hafi yfirfarið skattamál þeirra hjóna tíu ár aftur í tímann og komist að þeirri niðurstöðu að eignir aflandsfélags Sigurlaugar hafi aldrei verið í skattaskjóli. Anna Sigurlaug hafi ætíð greitt fullan skatt af eignum sínum og tekjum í samræmi við íslensk lög, segir í Morgunblaðinu, sem birtir greinargerð Sigmundar Davíðs í dag.

Sigmundur segir í yfirlýsingu á heimasíðu sinni að við framtalsgerð hafi verið horft í gegnum félagið, það er að segja Wintris,  eins og það hafi aldrei verið til og eignir þess skráðar sem bein eign Önnu frá því ári áður en svokallaðar CFC-reglur tóku gildi. Sigmundur segir að sú varfærna leið, eins og hann orðar það, að greiða skatta af öllum eignum, hverri fyrir sig, í stað þess að nýta félagið og líta á það sem fyrirtæki í atvinnurekstri og skila svokölluðu CFC-framtali,  hafi skilað sér í hærri skattgreiðslum til ríkisins en ella.

Skattalagasérfræðingar sem fréttastofa hefur rætt við í morgun setja spurningamerki við þetta. Ávallt hefði átt að skila CFC skattframtali, annað væri ekki í samræmi við íslensk skattalög. Ekki náðist í Skattstjóra eða skattrannsóknarstjóra við vinnslu fréttarinnar.


Tengdar fréttir

Sigmundur Davíð opnar bókhaldið

"Leiðrétting umsýslufélags á skráðu eignarhaldi 31. desember 2009 breytir engu um skattgreiðslur vegna Wintris,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×