Viðskipti innlent

Bein útsending: Seðlabankinn rökstyður óbreytta stýrivexti og hærri verðbólguspá

ingvar haraldsson skrifar
Þórarinn G. Pétursson og Már Guðmundsson, nefndarmenn í peningastefnunefnd.
Þórarinn G. Pétursson og Már Guðmundsson, nefndarmenn í peningastefnunefnd. vísir/stefán
Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands tilkynnti í morgun að hún hefði ákveðið að halda vöxtum bankans óbreyttum. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því áfram 5,75%. Upptöku af fundi þar sem Seðlabankinn kynnti vaxtaákvörðunina má sjá í spilaranum hér að neðan.

Þar kynntu Már Guðmundsson seðlabankastjóri og Þórarinn G. Pétursson aðalhagfræðingur að rökin fyrir ákvörðun peningastefnunefndar. Jafnframt var efni nýútgefinna peningamála kynnt.

Í rökstuðningi bankans er bent á að flest bendi til þess að hagvöxtur verði enn meiri í ár en í fyrra. Verðbólga sé þó enn undir markmiði og hafi verið um tveggja ára skeið.

Samkvæmt spá Seðlabankans er að öðru óbreyttu útlit fyrir að verðbólga verði undir markmiði fram eftir ári en aukist þegar innflutningsverðlag hættir að lækka.

Samkvæmt spá Seðlabankans verður verðbólga 3% á lokafjórðungi ársins og 4½% á seinni hluta næsta árs en tekur síðan að þokast að markmiði fyrir tilstilli aðhaldssamrar peningastefnu. Seðlabankinn hefur því hækkað verðbólguspá sína frá því í febrúar og segir Seðlabankinn muninn skýrist af því að nú séu horfur á meiri vexti efnahagsumsvifa en þá hafi verið gert ráð fyrir.

Upptöku frá fundi Seðlabankans í morgun má sjá hér að neðan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×