Stjörnuprýtt lið PSG hreppti bronsið í Meistaradeild Evrópu í handbolta eftir tveggja marka sigur, 29-27, á lærisveinum Alfreðs Gíslasonar í Kiel.
PSG byrjaði af miklum krafti og var komið í 8-4 eftir tíu mínútna leik. Þeir voru alltaf með gott forskot í fyrri hálfleik og leiddu 15-11 í hálfleik.
Hægt og rólega komust Þjóðverjarnir inn í leikinn og Patrick Wiencek jafnaði metin í 19-19 þegar tuttugu mínútur voru eftir af leiknum.
Þegar fjórar mínútur voru eftir af leiknum var staðan jöfn 27-27, en á lokasprettinum reyndust frönsku meistararnir sterkari og unnu að lokum 29-27.
Mikkel Hansen fór á kostum í liði Paris og skoraði tíu mörk, en næstur kom Sergiy Onufryienko með sex mörk.
Christian Dissinger skoraði sjö mörk fyrir Kiel og var markahæstur. Næstmarkahæstur var Domagoj Duvnjak með fimm mörk.
Alfreð Gíslason þjálfar lið Kiel, en Anton Gylfi Pálsson og Jónas Elíasson dæmdu leikinn og komust þeir vel frá verkefninu.
Úrslitaleikurinn hefst svo klukkan 16.00 þar sem Aron Pálmarsson og félagar í Veszprém mæta Kielce. Leikurinn er að sjálfsögðu í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport/HD.
