Lífið

Jens bauð fólkinu sem bjargaði lífi hans út að borða

Stefán Árni Pálsson skrifar
Mynd af hópnum þegar þau fóru út að borða: Kristinn Logi Hallgrímsson læknir, Valdís Kristmundsdóttir eiginkona Jens, Jens Jónsson, Guðrún Bjarnadóttir hjúkrunarfræðingur, Sveinn Akerlie flugstjóri, Andrea Kristjánsdóttir hjúkrunarfræðingur og Díana Arnfjörð fyrsta freyja.
Mynd af hópnum þegar þau fóru út að borða: Kristinn Logi Hallgrímsson læknir, Valdís Kristmundsdóttir eiginkona Jens, Jens Jónsson, Guðrún Bjarnadóttir hjúkrunarfræðingur, Sveinn Akerlie flugstjóri, Andrea Kristjánsdóttir hjúkrunarfræðingur og Díana Arnfjörð fyrsta freyja.
Jens Jónsson fékk hjartaáfall um borð í vél WOW air og var endurlífgaður fyrir rúmu ári síðan. Í fyrradag bauð hann öllum út að borða sem björguðu lífi hans.

Jens fékk hjartaáfall í vél WOW air norðvestur af Skotlandi á leið frá Alicante til Keflavíkur í maí í fyrra.

Um borð voru hjúkrunarfræðingarnir Guðrún Bjarnadóttir og Andrea Kristjánsdóttir ásamt lækninum Kristni Logi Hallgrímssyni. Um borð í vélinni var einnig hjartastuðtæki og má því í raun segja að Jens hafi verið eins heppinn í ógæfu sinni og hægt var. Hjartastuðtækið var notað fimm sinnum og þrátt fyrir að flestir hafi verið búnir að gefa upp vonina þá náði hópurinn endurlífgun sem er í raun algjört kraftaverk.

Flugáhöfn vélarinnar tók strax þá ákvörðun að lenda á Glasgow flugvelli þar sem það var skemmsti mögulegi tíminn til að koma Jens undir læknishendur.

Svein Akerlie, flugstjóri, og Díana Arnfjörð, fyrsta freyja, segja bæði að þessi upplifun sé eitthvað sem enginn í áhöfninni eigi eftir að gleyma.  Viðbrögð áhafnarinnar mun hafa verið til fyrirmyndar og hafi allt allt gengið eins og best verður á kosið.

Núna ári síðar bauð Jens öllum þeim sem komu að lífgjöfinni út að borða og vildi þakka fyrir viðbrögð allra um borð í vélinni. Kvöldið var einstaklega vel heppnað og var Jens mjög þakklátur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×