Erlent

Ætla sér að ráðast gegn höfuðvígi ISIS

Samúel Karl Ólason skrifar
SDF segist hafa safnað saman þúsundum vopnaðra manna og kvenna til árásarinnar.
SDF segist hafa safnað saman þúsundum vopnaðra manna og kvenna til árásarinnar. Vísir/EPA
Bandalag Kúrda og uppreisnarmanna í Sýrlandi vinnur nú að því að umkringja borgina Raqqa sem er í haldi Íslamska ríkisins. Borgin er nokkurs konar höfuðborg ISIS í Sýrlandi. Bandalagið SDF eða Syrian Democratic Forces, sem Kúrdar stýra, er stutt af loftárásum Bandaríkjanna.

Þeir segjast hafa safnað þúsundum vopnaðra manna og kvenna saman norður af borginni og berast fréttir af bardögum í nærliggjandi þorpum.

Kúrdum hefur gengið nokkuð vel gegn ISIS í norðanverðu Sýrlandi, en það að Arabar séu með þeim í SDF þykir mikilvægt til að sóknin heppnist. Þeir munu þurfa að taka yfir þéttbýl svæði þar sem yfirgnæfandi meirihluti íbúa eru Arabar.

Haft er eftir Steve Warren, talsmanni bandalags Bandaríkjanna gegn ISIS, á vef Al-Jazeera að bandalagið styðji við bakið á SDF. Það verði gert með loftárásum. Þá segir blaðamaður miðilsins að orrustan um Raqqa verði erfið.

Minnst 270 þúsund manns hafa fallið í borgararstyrjöldinni í Sýrlandi frá árinu 2011.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×