Innlent

Ólafur Ragnar sæmdur æðstu orðu Grænlands

Kristján Már Unnarsson skrifar
Lars-Emil Johansen, forseti grænlenska þingsins, veitti forseta Íslands gullorðuna.
Lars-Emil Johansen, forseti grænlenska þingsins, veitti forseta Íslands gullorðuna. Mynd/Grænlenska þingið.
Grænlendingar hafa heiðrað Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands, með gullorðu grænlenska þingsins, Nersornaat. Þingforseti Grænlands, Lars-Emil Johansen, veitti Ólafi orðuna við hátíðlega athöfn á lokadegi Grænlandsráðstefnu Arctic Circle í Nuuk á fimmtudag.

Nersornaat-orðan úr gulli er æðsta viðurkenning sem Grænlendingar veita en hún er einnig veitt sem silfurorða. Meðal annarra sem hlotið hafa gullorðuna eru Jonathan Mozfeldt, Margrét Danadrottning, Friðrik krónprins, Poul Schlüter og Uffe Elleman-Jensen. Ólafi Ragnari er veitt orðan fyrir framlag sitt og forystu í málefnum Norðurslóða og fyrir samstarf við Grænland.

Í ávarpi sínu sagði Lars-Emil Johansen meðal annars að það hefði þurft víking til að takast á við þær áskoranir sem Ísland hefði gengið í gegnum á undanförnum árum. Forseti Íslands hefði hlotið alþjóðlega viðurkenningu fyrir sitt innlegg þegar fjármálakreppan herjaði á Ísland.

“Þér voruð hinn rétti víkingur, og Ísland á sannarlega bjarta framtíð, sem við höfum fylgst grannt með af okkar breiddargráðu,” sagði Lars-Emil, að því er fram kemur í umfjöllun grænlenskra fjölmiðla um orðuveitinguna, bæði á netmiðli Sermitsiaq og grænlenska sjónvarpsins KNR.

Hann sagði Vestnorræna ráðið hafa notið velvilja Ólafs Ragnars, sem hefði kynnt mikilvægi þessa samstarfs. Meðal annars þessvegna hefðu vestnorrænu ríkin komist á heimskortið, þar á meðal Grænland.

Í frétt á heimasíðu forsetaembættisins segir að forseti Íslands hafi í ávarpi þakkað þann mikla heiður sem sér væri sýndur. Forsetinn hafi lýst samstarfi sínu við forystumenn Grænlands og hve mikilvæg staða Grænlands væri í framtíðarskipan Norðurslóða. Hann væri djúpt snortinn vegna ákvörðunar grænlenska þingsins um að veita sér þennan heiður.

Lars-Emil Johansen óskar Ólafi Ragnari til hamingju.Mynd/Grænlenska þingið.

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×